Arnór Bjarki Ívarsson skrifaði í gær undir félagaskipti og leikmannasamning við Selfoss. Arnór er 23 ára gamall leikstjórnandi sem kemur til okkar frá Haukum í Hafnarfirði, en þar er hann upp alinn og hefir leikið allan sinn feril hingað til.

Arnóri er ætlað að auka breiddina og styrkja Selfossliðið í stöðu leikstjórnanda, sem hefur verið allþunnskipuð eftir að Hlynur Hreinsson datt út vegna meiðsla á undirbúningstímabilinu.

Arnór Bjarki spilaði 22 leiki fyrir Hauka í Dominosdeildinni á síðasta tímabili, skoraði 3,5 stig og gaf 2,5 stoðsendingar að meðaltali á rúmum 22 mínútum. Þrátt fyrir ungan aldur lendir Arnór í flokki með elstu mönnum Selfossliðsins, og reynsla hans úr Dominosdeildinni á eftir að vega þungt í leit liðsins að jafnvægi og stöðugleika.

Ekki varðar minnu að Arnór er gull af manni og fellur því vel inn í góðan og samheldinn leikmannahópinn.

Velkominn á Selfoss, Arnór Bjarki.