Selfoss gerði góða ferð austur í Hornafjörð í hvassviðrinu í gær og lagði Sindra að velli í 1. deild karla, 79-88. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en Selfoss hafði þó  jafnan frumkvæðið, þó Sindri nartaði stöðugt í hælana, jafnaði og komst stöku sinnum stigi eða tveimur yfir.

Jafnt var eftir fyrsta hluta, 23-23, í hálfleik 43-43 en Selfoss leiddi 60-63 fyrir lokafjórðunginn. Mestur varð munurinn í leiknum 11 stig Selfossi í hag en í fjórða leikhluta gáfu okkar menn aldrei eftir forskotið og héldu 6-10 stiga mun til loka, en Sindri hélt muninum innan skekkjumarka, m.a. með þremur „neyðarþristum“ með mann í andlitinu og skotklukkuna að renna út. Flottar skyttur í liðinu.

Fyrir Sindra voru Stefan Knezevic (16 stig, 8 fráköst) og Andrée Fares Michaelsson (24 stig, 4 frk.) öflugastir, ásamt Ivan Kekic (10 stig) og Ignas Dauksys (14 stig, 9 frk.).

Sem fyrr leiddi Christian Cunningham Selfossliðið á flestum póstum; í skori (30 stig), fráköstum (20), stoðsendingum (6), vörðum skotum (2), framlagi (45) og baráttugleði. Kristijan var líka mjög góður með 24 stig, 4 fráköst, og góða nýtingu (5/7 í þriggjastigaskotum) og 26 framlagsstig. Rhys átti fínan dag, 8 stig og 8 fráköst og einnig Svavar Ingi, sérstaklega í varnarbaráttu undir eigin körfu, og skilaði 5 stigum og 5 fráköstum. Arnór Ívars kemur smám saman betur inn í leikinn og hafði góð áhrif undir lokin þegar nauðsynlegt var að halda haus.

Allir 12 leikmenn Selfoss komu við sögu og lögðu þau nauðsynlegu grömm á vogarskálarnar sem vantaði til að tryggja sigurinn, baráttu og sigurvilja, fráköst og flottar körfur hér og þar, og ekki síst verður að hrósa liðsandanum, því bekkurinn var frábær, hávær og hvetjandi.

Selfossliðið lærði í gær mikilvæga lexíu um það hvernig á að vinna jafna leiki. Vonandi yfirfærist sá lærdómur í næstu leiki.

Tölfræðin

Næsti leikur er heima í Gjánni á föstudag, 22.11.19 kl. 19:15, gegn Álftanesi.