Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir lék Chaed Wellian ekki með  Selfossliðinu gegn Sindra sl. föstudag. Hann sneri sig illa á ökkla á æfingu í síðustu viku og var „óvinnufær“ í framhaldinu.

Segulómkoðun leiddi í ljós að liðband í ökklanum er slitið og því óvíst með framhaldið hjá þessum geðþekka framherja. Að mati sérfræðings þarf hann þó líklega ekki að fara í aðgerð. 

Chaed er í meðferð hjá sjúkraþjálfara til að draga úr bólgum og á næstu dögum kemur í ljós hvort hann verður fær um að spila fleiri leiki en þennan eina sem hann hefur klæðst Selfossbúningnum hingað til.

Þetta er vitaskuld kjaftshögg fyrir liðið okkar en „eigi skal gráta Björn bónda heldur safna liði“. Vonandi tekst að tjasla Chaed saman á næstu vikum svo hann geti spilað einhverja leiki í þriðju og síðustu umferðinni.

Að öðrum kosti er það undir hinum ungu og óreyndu strákum komið, sem að stærstum hluta skipa liðið, að „girða sig í brók“ og sýna hvað í þeim býr.

„Upp með sokkana“ piltar. Áfram Selfoss!!!