Jafnréttisstefna

//Jafnréttisstefna
Jafnréttisstefna2019-01-20T13:37:00+00:00

Almennt

Jafnréttisáætlun SELFOSS-KÖRFU er unnin af stjórn félagsins í samstarfi við Jafnréttisstofu og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Jafnréttisáætlun er kynnt starfsmönnum og iðkendum félagsins á aðalfundi félagsins ár hvert en hún er samþykkt af stjórn félagsins og endurskoðuð eftir þörfum, en þó ekki sjaldnar en á þriggja ára fresti. Jafnréttisáætlun FSU-KÖRFU er byggð á lögum nr 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (hér eftir eru þau nefnd jafnréttislög). 

SELFOSS-KARFA er fyrirmyndarfélag og eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði kynjanna er virt í hvívetna. Innan félagsins hafa konur og karlar jöfn tækifæri til að nýta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Kynbundið ofbeldi, kynbundið áreiti, kynferðislegri áreitni eða hver kyns ofbeldi er ekki liðið innan félagsins.

Markmið

Markmið jafnréttisáætlunar SELFOSS-KÖRFU er að tryggja jafnrétti kynjanna, stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla og jöfnum möguleikum, óháð kyni. Áætlunin nær jafnt til iðkenda, stjórnenda og starfsfólks félagsins. Það er stefna félagsins að kynin njóti sömu tækifæra, fái sömu laun fyrir sömu vinnu og hafi sömu réttindi til menntunar sem og möguleika til þess að þróa hæfileika sína. Mikil verðmæti felast í virku jafnréttisstarfi innan félagsins, því er einnig markmið áætlunarinnar að koma í veg fyrir að starfsfólk, stjórnendur og iðkendur verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni í leik og starfi á vegum félagsins. 

  1. Launajafnrétti 

Konum og körlum sem starfa hjá SELFOSS-KÖRFU skulu vera greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun. Starfsmönnum SELFOSS-KÖRFU skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum, ef þeir kjósa svo, samkvæmt 19. gr. jafnréttislaga. 

Laun eru í 8. tölul. 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans. Kjör eru í 9. tölul. 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár.

Aðgerð: Kanna skal árlega hvort kynbundinn munur sé á launum og starfskjörum þjálfara og iðkennda. Í janúar ár hvert skal vera gerð launaúttekt, komi í ljós kynbundinn munur á launum eða starfskjörum, sem ekki er hægt að skýra, þarf að bregðast tafarlaust við og leiðrétta þann mun. 

Ábyrgð: Stjórn félagsins

  1. Menntun og skólastarf

Samkvæmt 23. gr. jafnréttislaga skal gæta kynjasamþættingar við alla stefnumótun, áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal íþrótta- og tómstundastarfi. Iðkendur SELFOSS-KÖRFU skulu hafa jafnan möguleika til að þroskast og þróa körfuknattleikshæfni sína.

Aðgerð: Í byrjun árs skal setja fram áætlun um möguleika til menntunar eða endurmenntunar, þar sem karlar og konur hafi jafna möguleika til að sækja sér menntun til að þróa hæfileika sína í starfi. 

Ábyrgð: Stjórn félagsins

Jafnræðis skal gæta við úthlutun æfingatíma og í mótahaldi gagnvart konum og körlum. 

Aðgerð: Í byrjun hvers keppnistímabils skal yfirþjálfari setja upp áætlun um æfingatíma og þau mót sem farið verður á. 

Ábyrgð: Yfirþjálfari félagsins.

  1. Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni

Unnið skal markvisst að því að skapa menningu jafnréttis innan félagsins. Iðkendur, stjórnar- og starfsfólk SELFOSS-KÖRFU á rétt á því að komið sé fram af virðingu og að það sæti ekki kynbundinni eða kynferðislegri áreitni. Í jafnréttislögum eru eftirfarandi skilgreiningar:

Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Aðgerðir: Verklagsreglur gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi skulu vera birt í gæðahandbók félagsins. Þær skal kynna starfsfólki og iðkendum félagsins sem og endurskoðaðar í ágúst ár hvert. 

Ábyrgð: Stjórn félagsins.

Jáverk
Set
Hótel Selfoss
Yellow
Höldur
Ræktó