Selfoss samdi við tvo nýja erlenda leikmenn rétt fyrir áramótin og eru þeir þegar komnir til landsins og með leikheimild. Jafnframt var samningi við Mike Rodriguez og Arminas Kelmelis sagt upp og er þeim þakkað fyrir sín störf.

Nýju leikmennirnir eru Chaed Brandon Wellian og Marvin Smith Jr.

Wellian er Hollendingur, 26 ára gamall framherji sem leikið hefur víða um Evrópu. Hann lék 3 leiki með Sindra í 1. deildinni í nóvember og desember og var með 20 stig og 10 fráköst að meðaltali í þeim leikjum.

Wellian er ríflega tveggja metra hár, fjölhæfur leikmaður sem getur skotið af öllu færi, tekið fráköst og hefur góða sendingahæfni.

Marvin Smith Jr. er 23 ára gamall Bandaríkjamaður sem lauk ferli sínum hjá University of North Carolina sl. vor. Hann spilaði í haust í NBA G-League með Chicago. Smith Jr. er tæpra tveggja metra leikmaður, léttur framherji sem getur spilað fleiri stöður.

Selfoss-Karfa býður þess geðþekku leikmenn velkomna til leiks, en þeir fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr nk. föstudag þegar Selfoss mætir Snæfelli í Stykkishólmi kl. 19:15 í fyrsta leik eftir jóla- og áramótahléið.

Annan föstudag, 17. janúar, leikur Selfoss gegn Sindra á Höfn en fyrsti heimaleikurinn í Gjánni á nýju ári verður fimmtudaginn 24. janúar kl. 19:15 gegn Hetti frá Egilsstöðum. Sá leikur er jafnframt síðasti leikurinn í 2. umferð deildarkeppninnar.