Það var ekki að sjá mikla þreytu á körfuboltakrökkunum, er þeir mættu kátir og hressir um miðja nótt út í Gjá, íþróttahús Vallaskóla, til að hefja fimm daga keppnisferð sína á Göteburg basketball festival í Gautaborg, sem stefnt hafði verið að í eitt og hálft ár. Um var að ræða um þrjátíu og fimm keppendur fædda 2004-2006, af báðum kynjum, í fjórum liðum sem skráð höfðu verið til leiks.

Varla vorum við komin út fyrir bæjarmörkin, þegar söngur og gleði tók að berast frá yngri kynslóðinni í rútunni á leið í Leifsstöð og má með sanni segja að gleðin hafi verið allsráðandi þar til lagst var á koddann nítján tímum seinna, á gististað krakkana, menntaskóla í Gautaborg. Flogið hafði verið til Kaupmannahafnar og þaðan tekin rúta yfir til Svíþjóðar.

Þarna var á ferðinni flottur hópur samheldinna krakka sem voru ákveðnir í að gera sitt allra besta utan vallar sem innan ásamt því að njóta þess sem ferðin byði upp á. Í gegnum tíðina hefur samheldni foreldra/forráðamanna og stuðningur þeirra við krakkana verið einstakur og vakið athygli. Þess vegna kom ekki á óvart að um 25 foreldrar fylgdu krökkunum í þessa ferð. Mikil og góð vinátta hefur myndast í foreldrahópnum og gistu þeir flestir á svipuðum slóðum á meðan á ferðinni stóð.

Keppni hófst strax næsta morgun hjá öllum liðum. Fararstjórar og foreldrar máttu hafa sig alla við að finna út úr samgöngumálunum, þar sem leikirnir voru spilaðir á víð og dreif um borgina. Sporvagnar voru okkar aðal ferðamáti. Göteburg basketball festival er gríðarlega stórt mót og t.a.m voru um 670 lið skráð til leiks. Mótherjar okkar voru frá löndunum í kringum okkur. Eins og við var að búast unnust sumir leikirnir naumlega á meðan aðrir unnust mjög stórt. Einnig töpuðust sumir leikir með miklum mun en aðrir með grátlega litlum mun. Krakkarnir í Selfoss-körfu stóðu sig gríðarlega vel og má t.d. nefna að Selfoss A, skipað strákum fæddum 2006 komst alla leið í 16 liða úrslit.

Keppendur voru prúðir innan vallar og utan, sjálfum sér og öðrum til mikils sóma. Það þarf ekki að fylgjast lengi með þessum krökkum, til að sjá að áhuginn á körfubolta er mikill. Þau lögðu einnig hart að sér við að þeysast á milli keppnisstaða til að fylgja og styðja hin Selfoss liðin. Þá ómuðu baráttusöngvar og hvatningaróp úr stúkunni svo í glumdi.

Fyrir alla er hreint ævintýri að komast í svona ferð, fá að vera þátttakandi og upplifandi. Ríkulega var lagt inn í minningabankann þessa daga og ýmislegt prófað sem ekki hafði verið gert áður eða sjaldan. Frábærar ferðir í skemmtigarðinn Liseberg standa upp úr, en þar var gleðin allsráðandi eins og reyndar alla ferðina. Sumir tóku þetta alla leið á meðan að aðrir voru öllu rólegri og er þá bæði verið að tala um börnin og foreldrana. Gert var vel við sig í mat og drykk, kíkt var í sérverslanir með körfuboltavarning og borgin skoðuð. Þetta var ýmist gert í hópum eða maður á mann.

Það má með sanni segja að gleðin hafi verið allsráðandi alla ferðina og allt til loka hennar. Ennþá ómaði söngur í rútunum á heimleiðinni, sem samt dróst fram á miðja nótt.

Ekki er sjálfgefið að fá að fara svona ferð, það er heldur ekki sjálfgefið að svona ferð með um 60 þátttakendum takist svona vel, og að ekkert „sérstakt“ komi upp á. Með hjálp margra varð hún að veruleika og eru bæði keppendur, þjálfarar og forráðamenn þakklátir fyrir það. Með samheldni krakkana, liðstjóra, þjálfara og foreldra gekk allt upp.

Á því eina og hálfa ári sem krakkarnir hafa safnað sér fyrir ferðinni, hafa þeir tekið þátt í mörgum fjáröflunum. Sala á ýmsum varningi, sjoppurekstur og söfnun jólatrjáa eru dæmi um það sem þau tóku sér fyrir hendur. Síðast en ekki síst jöfnuðu krakkarnir ásamt foreldrum þeirra, kolefnisspor sitt og plöntuðu þúsundum trjáa í Hekluskógum. Kærar þakkir færum við öllum þeim sem studdu þau á einn eða annan hátt í fjáröfluninni fyrir þessa ferð. Pylsuvagninum á Selfossi, SET, BROS, MS, Kaffi Selfoss, Raflagnaþjónustu Suðurlands, Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða, Árvirkjanum, VÍS og Stúdíó Sport færum við sérstakar þakkir fyrir fyrir stuðninginn.

Upp úr stendur frábær frammistaða frábærra krakka innan vallar sem utan, sem við getum svo sannarlega verið stolt af.

Áfram Selfoss Karfa !