Þann 23. júní 2005 var undirritaður þríhliða samstarfssamningur Fjölbrautaskóla Suðurlands, Sveitarfélagsins Árborgar og fyrirtækisins Sideline Sports á Íslandi. Í samningum fólst að afreksfólk í körfuknattleik á framhaldsskólaaldri fengi tækifæri til að flétta saman nám, æfingar og keppni við bestu aðstæður. Stofnað var sérstakt íþróttafélag, Íþróttafélag FSu, sem fékk aðild að íþróttahreyfingunni í gegnum Héraðssambandið Skarphéðin (HSK) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ). 

Haustið 2010 var Körfuknattleiksfélag FSu stofnað og tók það við af Sideline Sports sem samstarfsaðili sveitarfélagsins og skólans um rekstur Körfuboltaakademíunnar. Auk þess að reka Akademíuna fór fram á vegum félagsins öflugt yngriflokkastarf og þátttaka í keppnum á vegum  Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, bæði Íslandsmóti og bikarkeppnum. Lið FSu í meistarflokki karla hefur frá upphafi árið 2005 leikið í efstu deildum Íslandsmótsins, þar af þrjú tímabil í Úrvalsdeild. Félagið hefur tvívegis hampað Íslandsmeistaratitli í unglingaflokki karla og einum bikarmeistaratitli. 

Haustið 2013 var í fyrsta skipti í sögu félagsins skráð lið í meistaraflokki kvenna til keppni í Íslandsmóti. Það lifði ekki nema eitt keppnistímabil en  markmiðið er að koma á fót kvennaliði í meistaraflokki til framtíðar. Nú eru efnilegar stúlkur í yngriflokkastarfinu og vonir eru bundnar við að þátttaka stúlkna í akademíunni muni styrkja kvennastarfið til muna á næstu árum.

Á aðalfundi félagsins vorið 2018 var samþykkt að breyta nafni þess í Körfuknattleiksfélag Selfoss. Nafnbreytingin hefur engin áhrif á starfsemina, félagið er rekið áfram á sömu kennitölu, með sömu háleitu markmiðin, kröfur um fagleg vinnubrögð og megináherslu á að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að bæta sig við bestu aðstæður. 

Jáverk
Set
Hótel Selfoss
Höldur
Ræktó
Ræktó
Ræktó