Körfuknattleikur á sér langa sögu á Selfossi. Frá upphafi um og fyrir miðja 20. öld og fram til 2005 var hann starfræktur undir merkjum Umf. Selfoss með slitróttri þátttöku í mótum á vegum KKÍ og í héraðsmótum HSK. Yngriflokkastarf var takmarkað lengst af á 20. öld en breyting varð á þessu um 1990, starfið varð markvissara og skipulega unnið að uppbyggingu yngriflokka. Meistaraflokkar karla og kvenna tóku þátt í héraðsmótum og Selfoss var með lið í 1. deild karla frá 1994, og allar götur síðan í efstu deildum. Ekki verður hér gerð frekari grein fyrir starfinu innan Umf. Selfoss, nema að geta þess að tveir Íslandsmeistartitlar unnust í yngri aldursflokkum. Það var 1985 árgangur drengja sem varð Íslandsmeistari í 7. flokki árið 1998 og aftur í 10. flokki árið 2001. Þessi árangur markaði tímamót í sögu körfuboltans á Selfossi og var afrakstur markviss uppbyggingarstarfs áratuginn á undan.

Þann 23. júní 2005 var undirritaður þríhliða samstarfssamningur Fjölbrautaskóla Suðurlands, Sveitarfélagsins Árborgar og fyrirtækisins Sideline Sports á Íslandi. Í samningum fólst að afreksfólk í körfuknattleik á framhaldsskólaaldri fengi tækifæri til að flétta saman nám, æfingar og keppni við bestu aðstæður. Stofnað var sérstakt íþróttafélag, Íþróttafélag FSu, sem fékk aðild að íþróttahreyfingunni í gegnum Héraðssambandið Skarphéðin (HSK) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ). Við stofnun hins nýja félags utan um Körfuboltaakademíuna við FSu. færðist iðkun og allt körfuboltastarf frá Umf. Selfoss og hefur síðan verið rekið í sjálfstæðu körfuboltafélagi.

Haustið 2010 var Körfuknattleiksfélag FSu stofnað og tók það við af Sideline Sports sem samstarfsaðili sveitarfélagsins og skólans um rekstur Körfuboltaakademíunnar. Auk þess að reka Akademíuna fór fram á vegum félagsins öflugt yngriflokkastarf og þátttaka í keppnum á vegum  Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, bæði Íslandsmóti og bikarkeppnum. Lið FSu í meistarflokki karla hefur frá upphafi árið 2005 leikið í efstu deildum Íslandsmótsins, þar af þrjú tímabil í Úrvalsdeild. Félagið hefur tvívegis hampað Íslandsmeistaratitli í unglingaflokki karla og einum bikarmeistaratitli. 

Haustið 2013 var í fyrsta skipti í sögu félagsins skráð lið í meistaraflokki kvenna til keppni í Íslandsmóti. Það lifði ekki nema eitt keppnistímabil en  markmiðið er að koma á fót kvennaliði í meistaraflokki til framtíðar. Nú eru efnilegar stúlkur í yngriflokkastarfinu og vonir eru bundnar við að þátttaka stúlkna í akademíunni muni styrkja kvennastarfið til muna á næstu árum.

Á aðalfundi félagsins vorið 2018 var samþykkt að breyta nafni þess í Körfuknattleiksfélag Selfoss. Nafnbreytingin hefur engin áhrif á starfsemina, félagið er rekið áfram á sömu kennitölu, með sömu háleitu markmiðin, kröfur um fagleg vinnubrögð og megináherslu á að gefa ungum leikmönnum tækifæri til að bæta sig við bestu aðstæður. 

Frá miðjum öðrum áratug 21. aldar hefur samstarf við nágrannafélögin í Árnessýslu færst í vöxt. Í aldursflokkum þar sem félögin hvert um sig hafa ekki nægan fjölda iðkenda senda þau til keppni sameiginleg lið. Vorið 2021 bar samvinna af þessu tagi þann ávöxt að lið Þórs/Hamars/Hrunamanna/Selfoss varð Íslandsmeistari í 10. flokki kvenna.

Jáverk
Set
Hótel Selfoss
Höldur
Ræktó
Ræktó
Ræktó