Álftanestvennan, leikstjórnandinn og miðherjinn, reyndust of stór biti fyrir Selfoss í gærkvöldi í fyrsta leik eftir enn eitt veiruhléið. Selfoss leiddi allan fyrri hálfleikinn, með litlum mun þó, en gestirnir voru stigi yfir í hálfleik, 45-46. Heimamenn héldu frumkvæðinu áfram fram í miðjan þriðja fjórðung en í stöðunni 54-53 á 25. mínútu snerist taflið við, Álftnesingar skoruðu 8 stig í röð og litu ekki við eftir það, unnu þægilegan 10 stiga sigur, 87-97.

Varnarleikurinn varð Selfossliðinu að falli að þessu sinni. Það réð ekki við tveggja manna leik Róberts Sigurðssonar og Cedrick Bowen, með boltahindrun á toppnum sem Róbert nýtti vel í kjölfarið og gerði það sem honum sýndist; skoraði sjálfur eða dældi stoðsendingum á félaga sína, oftast Bowen sem skoraði of mikið af auðveldum körfum úr sniðskotum, eða aðrir fengu frí þriggja stiga skot. Þessir tveir voru allt í öllu, Róbert með 20 stig, 14 stoðsendingar, 60% skotnýtingu og 35 framlagspunkta og Bowen 32 stig, 10 fráköst, 67% skotnýtingu og 39 framlagspunkta. Þá var Friðrik Anton Jónson góður með 16 stig og 7 fráköst, 3/5 úr þristum.

Kennedy Clement var bestur heimamanna, bæði í sókn og vörn. Hann skoraði 25 stig og tók 9 fráköst. Skotnýtingin var frábær, 6/8 í tveggja stiga tilraunum og 4/5 í þristum, 77% nýting utan af velli, 34 framlagspunktar. Kristijan átti líka góðan leik, 18 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar eru ljómandi góðar tölur. Terrance mætti ekki rétt stemmdur til leiks og munar um minna; 14 stig, 6 fráköst og slök skotnýting er ekki sá grunnur sem ungt lið getur byggt árangur á. Gunnar Steinþórsson var góður, gerði marga laglega hluti og skoraði 13 stig. Sveinn Búi skoraði 7 og tók 6 fráköst, Sigmar Jóhann 5 stig, Arnór Bjarki 4 og Svavar 1 stig.

Þetta er okkar saga í vetur. Einn og einn leikmaður hittir á góðan leik, sjaldnast tveir í einu og aldrei sami leikmaður tvo leiki í röð. Það vantar þann stöðugleika sem ungum og lítt reyndum leikmönnum er nauðsynlegur til að efla sjálfstraustið og hræðast ekki að gera mistök. Mann sem alltaf er hægt að treysta á að skili sínu.

En burtséð frá úrslitunum þá fá strákarnir dýrmæta reynslu og sýna það sannarlega inn á milli hvað þeir hafa upp á að bjóða. Við erum með hæfileikaríka stráka í liðinu sem leggja sig alla fram og hafa alla burði til að gera það gott í framtíðinni. Það er gefandi að vinna með slíkan efnivið.

 

Myndasafn Björgvins Rúnars Valentínussonar úr leiknum

Tölfræðiskýrslan