Um síðustu helgi fóru fram nokkrir leikir í yngri flokkum. 8. flokkur stúlkna keppti í sameiginlegu liði Hamars/Selfoss á Selfossi, Styrmir okkar keppti með sameiginlegu liði Þórs/Hrunamanna/Selfoss og stúlknaflokkur fór í heimsókn í Kópavoginn.

Strákarnir í 8. flokki drengja með Styrmi innanborðs spilaði í a-riðli að venju. Mótið fór að þessu sinni fram í Garðabæ og er skemmst frá því að segja að strákarnir stóðu sig frábærlega og sigruðu alla sína leiki. Þeir hafa verið í toppbaráttu í sínum árgangi síðustu ár og er gaman að sjá hvað samstarf félaganna gengur vel.

Stelpurnar í 8. flokki spiluðu í b-riðli hér á Selfossi. Þær spiluðu í gríðarlega jöfnum b-riðli þar sem öll liðin virtust geta sigrað hvert annað. Mótið fór vel af stað fyrir okkar stelpur en þær sigruðu lið Fjölnis í fyrsta leik. Ekki náðist þó að fylgja eftir góðri byrjun og töpuðust næstu tveir leikir. Síðasti leikur á sunnudaginn var því hreinn úrslitaleikur við ÍR hvort liðið myndi falla um riðil. Þar sýndu stelpurnar hvað í þeim býr og unnu þær flottan sigur sem tryggði þeim áframhaldandi veru í b-riðli. Eins og áður sagði var riðillinn gríðarlega jafn og endaði hann þannig að Fjölnir vann með 6 stig, Hamar/Selfoss, Haukar og Tindastóll voru öll með 4 stig og ÍR með 2 stig.

Stúlknaflokkur spilaði á móti Breiðablik á sunnudaginn í leik sem aldrei komst á flug og einkenndist mikið af misheppnuðum sniðskotum og klaufalegum mistökum á báðum endum vallarins. Leikurinn byrjaði þó vel fyrir okkar stelpur og komust þær snemma yfir en Blikar voru þó aldrei langt undan. Með mikilli seiglu komst Breiðablik svo yfir í seinni hálfleik en leikurinn var jafn og spennandi alveg fram á lokamínútu en endaði þó með sigri Breiðabliks, 55-51. Næsti leikur stúlknaflokks er núna á sunnudaginn þegar þær mæta KR í Vallaskóla kl. 15:00. Væri gaman að sjá sem flesta koma og styðja við bakið á stelpunum en þær eru staðráðnar í að gera betur heldur en í síðasta leik.

Þess ber líka að geta að b-lið drengjaflokks spilar tvo heimaleiki um helgina. Á laugardaginn kl. 14:00 taka þeir á móti Hetti/Sindra og á sunnudaginn kl. 13:00 er það svo lið Tindastóls sem kemur í heimsókn. Það er því líf og fjör í Vallaskóla um helgina og væri gaman ef fólk gæfi sér tíma til að koma og hvetja þessa flottu krakka áfram.