Um miðjan maí lauk Íslandsmótinu hjá Selfossi með tveimur úrslitaleikjum. Selfoss lék gegn Breiðabliki um Íslandsmeistaratitilinn í ungmennaflokki karla og gegn Skallagrími um deildarmeistaratitil í 12. flokki karla.

Breiðablik hafði yfirhöndina allan leikinn í ungmennaflokki. Selfoss gerði þó góðar atlögur öðru hvoru, og þetta var alvöru leikur, en Breiðablik var strtekara liðið og vann sanngjarnan 7 stiga sigur, 80-73, og er því Íslandsmeistari.

Í 12. flokki hélt Selfossliðið uppteknum hætti og vann öruggan sigur, 88-72. Liðið fór þar með „með hreint borð“ í gegnum Íslandsmótið, tapaði ekki einum einasta leik og er því deildarmeistarai í 2. deild.

Þetta er glæsilegur árangur hjá báðum liðum, 12. flokkur fer upp um deild og keppir í drengjaflokki á næsta ári í efstu deild, meðal bestu liðanna á landinu. Og Selfoss var með „langnæstbesta liðið“ í ungmennaflokki, og þó Blikarnir hafi óneitanlega verið bestir og verðskuldaðir Íslandsmeistarar, þá skákaði Selfoss mörgu stórveldinu í þeim aldursflokki sem er síðasta skrefið inn í meistaraflokk. Þetta ætti að gefa fyrirheit um að innan seilingar sé að félagið gæti orðið samkeppnishæft á efsta stigi, að teknu tilliti til árangurs ungmennaflokks og 12. flokks, og 11. flokks drengja að auki.

Þ.e.a.s. ef körfuboltahreyfingin hér á landi sér fyrir sér að byggja lið sín á uppeldisstarfinu en ekki einvörðungu á aðkeyptum kröftum.

ÁFRAM SELFOSS!!!