Tveir deildarmeistaratitlar í hús!
B-lið 12.flokks setti tóninn fyrir daginn með mögnuðum sigri á sterku Skagaliði í Keflavík. Strákarnir léku frábæra vörn og óeigingjarnan sóknarleik sem hefur einkennt þeirra spilamennsku í vetur. Skagamenn lagðir að velli í fyrsta sinn eftir þrjár misheppnaðar tilraunir fyrr í vetur. Frábært að toppa á réttum tíma, lokatölur 79-71. Unnar Örn var útnefndur mikilvægasti maður leiksins. Þessi bráðefnilegi leikstjórnandi stjórnaði leik sinna með með glæsibrag, skoraði 14 stig, reif niður 9 fráköst og var með 2 stoðir, alls 19 framlagspunkta. Allir leikmenn Selfoss léku mjög vel í leiknum, sérstaklega varnarmegin en vörnin í síðari hálfleik lagði grunninn að sigrinum. Fjölmenn stuðningssveit fylgdi piltunum í Reykjanesbæinn og lét vel í sér heyra. Þess má geta að allir leikmenn Selfoss í þessum leik eru fæddur 2006 eða 2007 og mikið afrek hjá þessum hópi að vinna sig upp í 1.deild. Til hamingju allir! Hér er hægt að skoða tölfræði leiksins. https://websites.mygameday.app/round_info.cgi?a=MATCH…
Síðar um daginn var komið að ungmennaflokknum, en sprækir Skalllagrímsmenn voru andstæðingar dagsins. Eins og áður hefur komið fram er ungmennaflokkurinn sameiginlegur með Hrunamönnum þar sem við eigum fáa drengi á þessum aldri og Hrunamenn einnig fámennir. Margir yngri drengir okkar megin hafa fengið stórt hlutverk með ungmennaflokknum í vetur og skilað sínu með glans. Ungmennaflokkurinn hefur verið á miklu skriði að undanförnu og hófu leikinn í dag með látum. Skoruðu mikið og hittu vel. Í leik þar sem mikið var skorað unnu okkar menn öruggan sigur, 116-89. Allir 12 leikmenn liðsins tóku þátt í leiknum og komust vel frá sín. Óðinn Freyr Árnason, Hrunamaður, var útnefndur mikilvægasti maður leiksins. Hann skoraði 30 stig, sendi 4 stoðsendingar og tók 3 fráköst. Hægt er að skoða tölfræði okkar manna í mynd sem fylgir þar sem tölfræðin er ekki kominn inn á vefinn. Til hamingju allir!