Skammt var stórra högga á milli hjá minniboltastelpunum, en strax helgina eftir keppnina hjá 11 ára liðinu var komið að minnibolta 10 ára að keppa í Kópavogi í 3.umferð Íslandsmótins í C1 riðli.

Nú var færðin góð en Covid aðeins að stríða okkur eins og oft áður. Á laugardaginn var leikið gegn KR b og Njarðvík b. Leikurinn gegn KR var jafn og spennandi allan tímann. KR stelpurnar voru harðar i horn að taka og höfðu talsverða hæð yfir okkur. Selfossstelpurnar, flestar reynslunni ríkari frá helginni áður, mættu grimmar frá byrjun og spiluðu ákveðna vörn og hraða sókn. Í seinni hálfleik hélt baráttan áfram en okkar stelpur náðu að landa sigri.

Í næsta leik mættum við Njarðvík sem við höfðum tapað fyrir í 1. umferðinni í Garðabæ í haust. Í fyrri hálfleik var jafnræði með liðunum og Selfoss hélt áfram sínum leik. Í þeim seinni gekk Njarðvíkurstelpunum talsvert betur að hitta en okkur og náðu að landa nokkuð öruggum sigri. Flottar stelpur þar á ferð og góður uppgangur í kvennakörfunni í Njarðvík. Einn sigur og eitt tap því niðurstaðan eftir fyrri daginn en gleðin alltaf til staðar og framfarirnar miklar.

Á sunnudeginum mættum við liði ÍR og vannst sá leikur örugglega og náðu allar Selfossstelpurnar að skora og spiluðu fantavel. Síðasti leikur dagsins var aftur gegn liði KR og var sá leikur járn í járn allan tímann. KRingar sem áður afar harðar í horn að taka og fengu okkar stelpur vel að finna fyrir tevatninu og þurftu að taka á honum stóra sínum. Í seinni hálfleik náðu okkar stúlkur að síga aðeins fram úr og lönduðu að lokum sigri gegn flottu KR liði. Aftur skoruðu allar okkar stelpur og flott spilamennska ásamt frábærri vörn og mjög mörgum fráköstum þótt KR stelpurnar væru margar bókstaflega höfðinu hærri en okkar.

Eftir vel heppnað mót var farið í Rush og orkan endanlega kláruð þar. Nú er næst á dagskrá að mæta á æfingar og halda áfram að bæta sig og mæta tilbúnar í næstu mót.

Lið var skipað þeim Telmu Karen úr 5.bekk, Heklu, Hrafnhildi, Sigríði Elvu og Telmu Gerði úr 4.bekk og Elísabetu úr 3.bekk.

-Trausti Jóhannsson, þjálfari mb. stúlkna

Myndir: Jón Sveinberg Birgisson, Kristín Birna Bragadóttir, Ólafur Valdín Halldórsson og Veiga Dögg Magnúsdóttir.