Þetta var skemmtilegur „fössari“ í Gjánni í kvöld. Eftir skell í Smáranum gegn besta liði deildarinnar á mánudaginn var Fjölnir næstur á dagskrá. Selfoss var betra liðið nánast frá upphafi til enda, þó aldrei hafi munað miklu, og landaði langþráðum sigri með óvenjulegu öryggi og æðruleysi á lokakaflanum, 88-81.

Þó margt hafi verið mótdrægt okkar unga liði í vetur glóir alltaf á perunni. Það sem stendur upp úr er að strákarnir hafa haldið haus, andanum og baráttugleðinni, þrátt fyrir að tapa aftur og aftur jöfnum leikjum, jafnvel „unnum  leikjum“. Slíkt reynir á, jafnvel fyrir reyndari menn en við höfum á að skipa, og því verður að hrósa þeim í hástert fyrir að glata aldrei trúnni, mæta nánast alltaf glaðbeittir og einbeittir í næsta leik. Selfoss hefur tapað 5 leikjum með 7 stigum eða minna og unnið eitt af toppliðunum, með fjölda erlendra atvinnumanna, með 28 stiga mun. Það má fullyrða að strákarnir okkar hafa í vetur öðlast mikilvæga reynslu sem mun nýtast þeim um ókomin ár: þetta eru upp til hópa hæfileikaríkir leikmenn sem eiga bjarta framtíð.

Selfoss leiddi nánast allan leikinn, mest með 11 sgtigum um miðjan 2. leikhluta, 40-29. Fjölnir komst yfir á stuttum kafla í lok þriðja leikhluta og var yfir að honum loknum, 60-62. En heimamenn tóku strax frumkvæðið aftur í upphafi þess fjórða með þriggjastigakörfu 63-62, og héldu forystunni til loka. Þrátt fyrir áköf tilþrif Grafarvogsdrengja undir lokin létu okkar menn nú ekki slá sig út af laginu, hittu af öryggi úr skotunum og settu niður vítin. Vel gert, drengir, og takk fyrir skemmtunina.

Carr (23 stig, 9 sts, 26 frl) og Dolven (18 stig, 10 frk, 18 frl) voru bestu menn Fjölnis. Viktor Steffensen var líka góður, og líkur pabba sínum (15 stig), og Ólafur Ingi Styrmisson (9 stig og 9 frk) og Rafn Kristján Kristjánsson (9 stig) gerðu vel. Það er Fjölnisliðinu til hróss, líkt og okkar liði, að þar fá ungir strákar stór hlutverk.

Víkjum þá að heimamönnum. Hinn 18 ára gamli Kennedy Clement, sem kom á Selfoss í kjölfar samstarfssamnings við Real Betis í janúar, var okkar besti maður með 22 stig, 13 fráköst, 4 stoðsendingar 2 varin skot og 33 framlagspunkta. Geri aðrir kjúklingar betur! Sveinn Búi Birgisson, 19 ára Akademíustrákur, var frábær í kvöld og setti má segja punktinn yfir i-ið, og ískalda hlekki á gestina, með tveimur fallegum þristum á lokamínútunum, 21 stig (80% skotnýting utan sem innan þriggjastigalínunnar) og 24 í framlag. Kristijan var sannkallaður fyrirliði, frábær varnarleikur og baráttuþrek hans blés liðinu byr í seglin (17 stig, 11 frl). Gunnar Steinþórsson átti sömuleiðis mjög góðan dag, lék góða vörn og lét pressuvörn lítið á sig fá, skoraði fallegar körfur (7 stig og 3 sts). Arnór Bjarki (7 stig, 2 frk, 3 sts), Svavar Ingi (2 stig, 2 frk) Sigmar Jóhann og Tyreese gerðu allir vel.

Síðast en ekki síst er að geta Terrance Motley, sem var sjálfum sér líkur og svaraði vel fyrir sig eftir tvo dapra leiki „eftir hlé“. Hann var með flotta tvennu, 12 stig og hvorki meira né inna en 17 fráköst og 6 stoðsendingar. Hans miklvægasta framlag, sem ekki sést á tölfræðiskýrslunni, var þó að halda Johannesi Dolven í „aðeins“ 10 fráköstum, 18 stigum og 18 frl, manni sem að meðaltali hefur skorað 20 stig, tekið 15 fráköst og skilað 25 framlagspunktum í leik með Fjölni. Vel gert, Terrance!

Það er alltaf gaman að vinna leiki, en enn skemmtilegra að vinna með ungum, efnilegum og áhugasömum leikmönnum. Að því leyti erum við lánsöm hér á Selfossi að hingað sækja slíkir einstaklingar, og við erum stolt af því að veita þeim tækifæri, jafnvel þó sigurleikirnir séu færri en hugsanlega með öðrum áherslum. Þá er líka gott að vera sannfærður um að sigur er fleira en að vinna næsta leik. Að stærri sigur sé fólginn í því að ungir leikmenn fái tækifæri og nýti það til að bæta sig.

Næsti leikur, og sá síðasti í deildarkeppninni, er gegn Hamri í Hveragerði nk. mánudag, 3. maí kl. 19:15.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræðin úr leiknum

Tilþrif úr leiknum

[ngg src=“galleries“ ids=“1″ display=“basic_thumbnail“ thumbnail_crop=“0″]