Þar sem síða þessi „lá niðri“ í nokkra daga birtist umfjöllun um leikinn gegn Hamri frá sl. mánudegi fyrst núna:

Síðasti leikur Selfoss í deildarkeppni 1. deildar karla fór fram á mánudaginn var í Hveragerði. Eins og oft áður velgdi Selfossliðið einu af toppliðum deildarinnar vel undir uggum en skorti reynslu á lokakaflanum til að vinna leikinn, Hamar sigldi framúr og lauk leiknum nokkuð þægilega, 97-89.

Fyrri hálfleikur var slakur hjá okkar mönnum, þá vantaði nauðsynlegt sjálfstraust og áræði í sóknarleikinn og vörnin var lek. Heimamenn gengu á lagið, náðu upp góðri liðsstemmningu og allt rataði hjá þeim gegnum körfuhringinn, eins og hálfleikstölur bera með sér, 56-37.

Í seinni hálfleik breyttist andinn í okkar liði og með ágætri svæðisvörn tókst að snarminnka „Medina-áhrifin“ og hægja þar með verulega á sóknarþunga Hamars. Góður varnarleikurinn blés glæðum í sóknarleikinn, eins og alkunna er, og Selfoss tók öll völd á vellinum, át muninn niður í 6 stig fyrir lok þriðja leikhluta, og komst 7 stigum yfir þegar best lét í fjórða. Liðið var svo í dauðafærum að auka muninn í tveggja stafa tölu um miðjan lokafjórðunginn. En þau tækifæri fóru nokkuð klaufalega forgörðum og þar með náðu heimamenn vopnum sínum og kláruðu dæmið síðustu 2 mínúturnar.

Jose Medina Aldana (23 stig, 12 sts, 5 frk.) var langbestur Hamarsmanna, virkilega góður leikstjórnandi, góður varnarmaður á boltann, sem auðveldar alla aðra varnarvinnu verulega, og í sókn ógnar hann vel fyrir utan, en hjálpar liðinu mest með því að sprengja upp vörn andstæðinganna og deila stoðsendingum út og suður. Hann lét marga liðsfélaga sína líta vel út  – og þeir nýttu þjónustuna.

Fimm leikmenn Selfoss skoruðu meira en 10 stig. Kristijan var stigahæstur með 22 stig og bætti við 9 stoðsendingum og 3 fráköstum. Kennedy setti 20 stig og tók 9 fráköst, Terrance 17 stig og 10 fráköst, Arnór Bjarki var með 14 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar og Sveinn Búi sömuleiðis 14 stig, en með 11 fráköstum, 5 stoðsendingum og afburða skotnýtingu setti hann aðra leikmenn aftur fyrir sig í framlagi, 28 punktum skilaði þessi stórefnilegi 18 ára gamli piltur. Svavar bætti við þeim 2 stigum sem upp á vantar en skotin duttu ekki að þessu sinni hjá öðrum.

Nú hefst úrslitakeppnin og Selfoss mætir liðinu í 3. sæti, sem er Sindri, í fyrstu umferð. Fyrsta viðureign liðanna fer fram í Hornafirði, 7. maí kl. 19:15. Leikur tvö er settur þriðjudaginn 11. maí kl. 19:15 í Gjánni og sá þriðji, ef á þarf að halda, í Hornafirði föstudaginn 14. maí kl. 19:15.