Nýjar sóttvarnareglur voru kynntar í dag. Það var skammgóður vermir að kynna í gær hér á síðunni fyrstu leiki eftir langt hlé, því nú hefur allt íþróttastarf í landinu verið bannað frá og með miðnætti 30. 10. til 17.11.  næstkomandi. Tímaramminn verður þó endurskoðaður eftir atvikum.

Þetta er auðvitað mikið högg, mikil vinna hjá KKÍ við að endurskipuleggja keppnistímabilið unnin fyrir gýg, og væntingar margra um að geta loks hafið leik slegnar í rot.

En ekki þýðir að gráta Björn bónda, heldur safna liði. Við verðum að taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti, bíta í skjaldarrendur og standa saman að því að hægt verði að byrja af fullum krafti um miðjan nóvember.

Þangað til, verið sæl í sinni – með von um að þessu linni!

Helstu takmarkanir, er okkur varða sérstaklega:

Allar takmarkanir ná til landsins alls.
10 manna fjöldatakmörk meginregla.
– 50 manna hámarksfjöldi í lyfja- og matvöruverslunum en reglur um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðisins.
Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
Íþróttir óheimilar.
Sundlaugum lokað.
Grímuskylda þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.
Börn fædd 2015 og síðar undanþegin 2 metra reglu, fjöldamörkum og grímuskyldu (gilti áður um börn fædd 2005 og síðar).