Selfoss gerði góða ferð til Akureyrar í gær, laugardag, og vann léttan 44 – 112 sigur á Þórsurum þar nyrðra í ungmennaflokki karla.

Liðið okkar á eftir tvo leiki í deildarkeppninni, báða um næstu helgi. Laugardaginn 22. apríl leikur liðið á útivelli gegn Fjölni og daginn eftir, sunnudaginn 23.04. mæta Akureyrar-Þórsarar til okkar í Gjána.

Ungmennaflokkur hefur staðið sig glimrandi vel í vetur, unnið 15 sigra í 20 leikjum, en Breiðablik trónir á toppnum með 2 tapleiki af 21 og stöðu þess verður ekki breytt úr þessu.

Fjölnir nartar í hæla Selfossliðsins í þriðja sæti, með 13 sigra í 20 leikjum, og getur sem sagt skotist upp fyrir Selfoss í töflunni á lokasprettinum, en aðeins ef Selfoss tapar báðum sínum leikjum og Fjölnir vinnur þá tvo sem hann á eftir. Selfoss og Fjölnir hafa mæst tvisvar í vetur og hvort lið unnið sinn leikinn, þannig að von er á spennandi viðureign nk. laugardag. Það þarf hins vegar eitthvað mikið að koma til svo okkar menn tapi fyrir Akureyringum, en báða leiki liðanna hingað til hefur Selfoss unnið með miklum mun.

Að lokinni deildarkeppninni tekur við úrslitakeppni og verður spennandi að sjá hvort Selfoss gerir ekki alvöru atlögu að Íslandsmeistaratitli.

ÁFRAM SELFOSS!!!