Selfoss gerði góða ferð austur á Egilsstaði í gær og sigraði Hött í hörkuleik í 1. deild karla. Opinberar lokatölur 80-97, og eftir að tapa fyrstu 4 leikjum sínum í haust hefur Selfoss alveg snúið við blaðinu með fjórum sigrum í röð, þar af einum í Geysisbikarnum. Reyndar vantar 1 stig á Selfossliðið, bæði ritari og stattari hafa verið að hugsa eitthvað annað þegar 1 víti, af þremur í röð sem fóru öll ofan í undir lok leiks, var misskráð, þannig að rétt úrslit eru 80-98.
Breytingin á Selfossliðinu sem stendur upp úr er að liðið heldur nú út til loka en gefur ekki eftir á lokakaflanum. Þrír af fjórum tapleikjum í upphafi móts voru einmitt þess eðlis: Selfossliðið hafði í fullu tré við andstæðinga sína í 35 mínútur eða svo, en þraut erindið í lokin, hafði kannski ekki næga trú á eigin getu eða skorti samhæfingu og traust milli leikmanna til að skapa nægjanlega þétta liðsheild. Aðeins í leiknum á Akureyri sá liðið eiginlega aldrei til sólar. Þetta er ekki óeðlilegt, því eins og rakið hefur verið hér á síðunni hefur ólán og óumbeðnar hræringar í leikmannahópnum sett stórt strik í reikninginn hjá félaginu og áætlunum þjálfarans við uppbyggingu liðsins. Vonandi eru þessir tímar að baki og liðið fært um að veita hverjum sem er verðuga keppni í framhaldinu.
En að leiknum í gær. Þetta var nokkuð harður leikur, fast tekist á og hvorugt liðið gaf þumlung eftir. Þrátt fyrir það var drengileg barátta, nema kannski einu sinni þegar Björn Ásgeir var „olnbogaður“ í gólfið. En það gæti líka vel hafa verið óvart. Annars var þetta barátta af gamla skólanum, stál í stál, og fannst ritara þessa pistils dómararnir vera of fljótir að fara í tækni- og óíþróttamannslegar villur; og missa þar með tökin á leiknum. Að fá á sig óíþróttamannslega villu fyrir að takast á við andstæðing um boltann, liggjandi í gólfinu, er of langt gengið fyrir hans smekk. Jafnvel þó legan sé ekki með öllu hreyfingarlaus. Og sömuleiðis tæknivillur fyrir einhver saklaus skeyti milli leikmanna inni á vellinum, látum vera þó það séu ekki allt einhverjar Maríubænir eða boð í barnaafmæli.
Jæja, hvað um það. Þetta réði ekki úrslitum fyrir austan. Selfossliðið var einfaldlega betra að þessu sinni og vann alla fjórðungana, þann fyrsta 24-28, annan fjórðung 16-24 og leiddi í hálfleik með 12 stigum. Fyrsti hluti var hnífjafn, Höttur var yfir 24-23 þegar mínúta var eftir en Selfoss skoraði 5 síðustu stigin, og hélt áfram sínu skriði inn í 2. fjórðung. Á 15. mínútu var munurinn kominn upp í 15 stig, 29-44, og hélst þetta 12-15 stig að mestu þar til um 2 mín. voru eftir af leiknum. Höttur komst á þessum kafla næst í 9 stiga mun, 51-60, eftir 26 mínútur en gerði svo loks heiðarlegt áhlaup síðustu mínúturnar, kom bilinu í 6 stig, 78-84, þegar 2 mín. voru eftir. En Selfoss hélt haus og kláraði dæmið með 2-13 kafla, til að létta langa kálfsreiðina heim á Selfoss.
Stór þáttur í sigrinum, og velgengninni undanfarið, er góð frammistaða í frákastabaráttunni. Selfoss vann hana 46-29 í gær og hefur raunar haft betur gegn andstæðingum sínum á þessu sviði undanfarið. Stundum er sagt, og ekki að ófyrirsynju, að fráköstin lýsi best karakter liðs. Ef það nennir að berjast fyrir fráköstum, þá eru grunngildin í lagi.
Hjá Hetti var Charles Clark bestur með 26 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Ramos kom næstur honum eð 18 stig. 7 frk. og 4 sts., þá Skurdauskas sem setti 11 stig úr 5 tilraunum, varði a.m.k. 3 skot glæsilega og tók 4 fráköst, en vermdi bekkinn nokkuð vegna villuvandræða, sem Viðar Örn var augljóslega ekki sáttur með.
Michael Rodrigues var öflugur fyrir Selfossliðið með 29 stig, 9 stoðsendingar og 3 fráköst. Með 50% skotnýtingu varð framlagsþungi hans 28 stig. Ari var líka mjög góður, skoraði 25 stig (5/8 í þristum) og tók 11 fráköst (22 stig skv. stattinu. Misskráða vítið vantar í stigaskor Ara og svo verður að geta þess að
tölfræðiskýrslunni og leikskýrslunni ber ekki saman. Á hvorri skal taka mark?). Þjálfari Selfoss, Chris Caird, fórnaði mjöðminni og tók fram skóna í fjarveru beggja miðherja liðsins (Maciek og Adam Smári eru báðir„á sjúkraalistanum“ og munar um minna). Chris hefur engu gleymt og setti 18 stig (78% nýting) og tók 7 fráköst á 23 mínútum. Chris og Mike voru hæstir í +/- með 18 stig hvor. Snjólfur bætti við enn einum góðum leik fyrir Selfossliðið, nú með 13 stig (skv. leikskýrslu/15 á stattinu) og 12 fráköst. Arminas skilaði fínu verki, skoraði 9 stig og tók 3 fráköst en lenti að ástæðulausu í „óíþróttamannslegu deildinni“. Svavar Ingi (2 sig), Björn Ásgeir (2 stig), Hlynur Freyr og Páll Ingason lögðu sín mikilvægu lóð á vogarskálarnar, þannig að það var sannkallaður liðsbragur yfir þessum góða sigri á erfiðum útivelli.
Þetta var síðasti leikurinn í 1. umferð deildarkeppninnar af þremur og næsti leikur er því leikur nr. 2 gegn Hamri 30.11. kl. 19:15, í Hveragerði.
Meðfylgjandi myndir Björgvins Rúnars eru úr leik Selfoss gegn Snæfelli í Gjánni 10. nóv. sl.