Í gær var lokahóf m.fl. karla haldið í Betri stofunni á Hótel Selfossi. Þetta var lítið og vinalegt samkvæmi fyrir strákana í liðinu, sem fengu úrvalsgóða steik, og veittar voru einstaklingsviðurkenningar þjálfarans fyrir framlag til liðsins á mismunandi sviðum.

Því miður voru erlendir leikmenn liðsins, sem kalla mætti atvinnumenn, farnir af landi brott og því ekki viðstaddir, en þeir hafa fengið sendar sínar viðurkenningar, sem voru eftirfarandi:

Besti leikmaður (MVP): Trevon LaWayne Evans

Besti varnarmaður: Gasper Jordan Rojko

Frákastari og framlagshæsti leikmaðurinn: Gerald Robinson

Þar sem liðið var að mestu skipað leikmönnum á aldrinum 15-19 ára var ákveðið að viðurkenna þá  sérstaklega sem áhugamenn.

Vinnuhesturinn: Óli Gunnar Gestsson. Óli sýndi alveg ótrúlega þrautseigju og kom til baka eftir erfið meiðsli og veikindi og sýndi þannig frábært fordæmi. Óli hefur nú fengið skólastyrk í Bandaríkjunum og mun reyna sig í háskólaboltanum þar vestra næstu árin. Til hamingju með það, Óli!

Mestu framfarir: Þorgrímur Starri Halldórsson. Starri var sívaxandi framan af en meiddist og missti eiginlega alveg af síðari hluta tímabilsins. Hann er nú farinn að æfa án spelku og allt horfir til betri vegar fyrir hann í Selfossbúningnum næsta og næstu ár.

Besti ungi leikmaðurinn: Styrmir Jónasson. Styrmir kom til okkar í haust aðeins 15 ára gamall og sýndi á köflum mjög góða takta í 1. deildinni. Hann er gegnheill og vinnuglaður og framtíðin sannarlega björt.

 

Besti varnarmaðurinn: Ísar Freyr Jónasson. Ísar er fljótur og mikill íþróttamaður og var iðulega settur til höfuðs bestu bakvörðum andstæðinganna. Hann hefur líka það verðmæta viðhorf góðra leikmanna að hafa gaman af því aðspila vörn og leggur sig ávallt allan fram við þá iðju.

Bestu leikmennirnir: Ísar Freyr Jónasson og Vito Smojver. Þó frammistaða þessara efnispilta hafi vissulega verið misjöfn yfir allt tímabilið, eins og eðlilegt er með 19 ára stráka að stíga sín fyrstu skref með meistarflokki, þá áttu þeir báðir nokkra frábæra leiki og sýndu í þeim hvers má vænta af þeim, bæði í vörn og sókn.

Fyrirliðinn: Sigmar Jóhann Bjarnason. Sigmar sýndi ótvíræða leiðtogahæfni í vetur sem fyrirliði liðsins, með ósérhlífni sinni og einstöku viðhorfi sem er til fyrirmyndar í alla staði.

Sigmar hefur nú leikið með Selfossi í þrjú timabil og er þar með orðinn „gamli kallinn“ í liðinu, aðeins 23 ára að aldri, og ábyggilega með yngstu fyrirliðum!!!