Selfoss Karfa hefur ráðið til starfa nýjan aðstoðarþjálfara við körfuboltaakademíu félagsins og meistaraflokk karla. Hann heitir Mikel Ereño og er 25 ára gamall, frá Bilbao á Spáni.

Mikel hefur þjálfað samhliða námi undanfarin 6 ár, leikmenn á aldursbilinu frá U13 til U18. Árið 2017 hóf hann störf sem aðstoðarþjálfari hjá atvinnumannaliði í Leb Gold, næst efstu deild á Spáni, og var þar í tvö ár.

Á síðasta ári var hann ráðinn til Real Betis og hjálpaði þar m.a. ungum efnum að þróa hæfileika sína og vann að dýpri tölfræðigreiningu fyrir ACB lið félagsins.

Mikel hefur lokið þjálfararéttindanámi hjá spænska körfuboltasambandinu, „National Basketball Coach Qualification“ árið 2017 og á síðasta ári „1st & 2nd Federation Qualification“.

Ásamt akademíunni og mfl. karla verður Mikel í þjálfarateymi yngri flokka á Selfossi.

Velkominn á Selfoss, Mikel!