Selfoss átti skínandi gengi að fagna um helgina. Þegar hefur verið greint frá frábærri frammistöðu 10 ára stúlkna, sem unnu alla fjóra leiki sína örugglega, en meira um vert, skemmtu sér konunglega og sýndu stúlknalega framkomu í hvívetna eins og þeim var von og vísa.

Önnur lið Selfoss sem öttu kappi voru strákarnir í mb. 10 ára, sem léku fjóra leiki eins og stelpurnar, og ungmennaflokkur karla sem fékk Val í heimsókn í Gjána í gær, laugardag. Minniboltastrákarnir unnu þrjá leiki en þurftu að sætt sig við að tapa fyrir Laugdælum, sem unnu riðilinn og færast upp um deild en okkar menn misstu af tækifærinu í þetta skipti.

Svona til að slá á létta strengi getur ritari ekki annað en samglaðst náfrændum sínum og sveitungum í Laugdælaliðinu og vonast til að þeir standi sig í efstu deild, og að Selfossliðið fylgi þeim upp eftir næstu umferð. Það er alltaf gleðilegt þegar litlu félögin sýna hvað í þeim býr og keppa á efsta þrepi með „þeim stóru“.

Leikur Selfoss gegn Val í ungmennaflokki varð ekki spennandi, Selfoss vann með 30 stigum, 99-69, og hefur nú unnið alla fimm leiki sína „á parketinu“ nú í upphafi móts, en vegna klaufaskapar var leikmaður ekki kominn með leikheimild í fyrsta leik og leikurinn því dæmdur tapaður, 20-0.

Tíundi leikur helgarinnar átti svo að fara fram í Gjánni síðdegis í dag, Selfoss – Keflavík í 11. flokki drengja. Keflvíkingar ákváðu hins vegar að halda sig heima, sennilega vegna veðurs, þó Selfyssingar hafi drifið sig með mb. lið 10 ára stúlkna til Grindavíkur og mb. lið 10 ára drengja í Hafnarfjörðinn. En aldrei er of varlega farið þegar veður eru válynd, og vonandi verður hægt að koma þessum leik á fyrr en seinna.

ÁFRAM SELFOSS!!!