Um helgina fóru fram fjölliðamót í minnibolta 11 ára þar sem drengirnir kepptu í Þorlákshöfn og stúlkurnar á Flúðum. Þá spiluðu stelpurnar okkar í 9. flokki á Selfossi á laugardaginn þar sem þær tóku á móti Vestra.

Sigríður Svanhvít Magnúsdóttir leikmaður okkar fædd 2010 keppti með stelpunum í Hrunamönnum á Flúðum. Þar spiluðu þær í b-riðli. Hart var barist og þó svo að úrslitin hafi ekki fallið með okkar stelpum var baráttan alveg til fyrirmyndar. Sigríður sem byrjaði að æfa körfubolta í vetur hefur tekið gríðarlegum framförum og alltaf gaman að fylgjast með henni á velli þar sem ekkert er gefið eftir.

 

Tvö lið frá okkur í minnibolta 11 ára drengja tóku þátt í mótinu í Þorlákshöfn. Annað liðið spilaði í c-riðli og hitt liðið í d-riðli. Eftir erfiðan laugardag þar sem einungis vannst einn sigur í fjórum leikjum mættu strákarnir heldur betur tilbúnir á sunnudeginum og unnu þrjá af fjórum leikjum sínum. Frábært var að fylgjast með strákunum þar sem samvinnan og dugnaðurinn var til mikillar eftirbreytni. Það voru sáttir drengir sem fóru heim á sunnudeginum búnir að gera sitt allra besta.

 

Stelpurnar í 9. flokki í Selfoss/Hrunamönnum áttu svo frábæran leik á laugardaginn. Okkar stelpurnar höfðu mikla yfirburði í leiknum alveg frá fyrstu mínútu og að fyrsta leikhluta loknum var staðan orðin 25:4. Aðeins hægðis á stigaskorinu hjá okkar stelpum í öðrum leikhluta en munurinn hélst svipaður og þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik var staðan 39:19. Í þriðja leikhluta bættu stelpurnar aðeins við muninn þar sem þær skelltu aftur í lás varnarlega og tókst Vestra einungis að skora þrjú stig í leikhlutanum. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 50:22. Svipað var uppi á teningnum í fjórða leikhluta þar sem góð vörn og óeigingjarn sóknarleikur skilaði að lokum flottum 71:28 sigri. Mikel þjálfari stelpnanna var gríðarlega ánægður með leikinn og talar um að stígandinn í liðinu hefur verið flottur frá því að mót hófst að nýju.