Selfoss mætti Þór frá Akureyri í 1. deild karla í gærkvöldi á heimavelli sínum í Gjánni. Þetta varð aldrei spennandi leikur, Selfoss hafði tögl og hagldir allan tímann og vann öruggan  22ja stiga sigur, 111 – 89. Eitt það ánægjulegasta í leiknum var að nokkrir af yngri kynslóðinni fengu að stíga inn á gólfið og reyna sig á þessu sviði, þeir Gísli Steinn (2006), Ari Hrannar (2006), Fróði Larsen (2006) og Skarphéðinn Árni (2005), sem stóðu sig allir vel. Að auki eru Birkir Hrafn (2006) og Styrmir (2005) að verða allsjóaðir í meistaraflokki, hófu sinn feril þar meira að segja í fyrra.

Forysta Selfoss varð mest 28 stig í þriðja leikhluta en Þór kom muninum í 8 stig skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Annars er svo sem ekki mikið að segja um gang leiksins, forysta Selfoss var örugg allan tímann.

Hjá Þór var ungur leikmaður, Páll Nóel Hjálmarsson, atkvæðamestur, frábær skytta þessi strákur, og nýtingin eftir því. Hann skoraði 22 stig og var framlagshæstur Þórsara með 21 punkt. Toni Cutuk skoraði 17 og tók 9 fráköst, Smári Jónsson skoraði 12 og gaf 6 stoðsendingar, en 9 leikmenn liðsins komust á blað í stigaskori.

Arnaldur Grímsson fór fyrir Selfossliðinu með 23 stig, 9 fráköst og heila 29 framlagspunkta, skotnýtingin aftur afbragð aftur smá niðursveiflu í síðustu leikjum. Gerald kom næstur í stigaskori með 21 og bætti við 7 fráköstum. Kennedy skoraði 19 og skilaði 24 frlp. og Ísar Freyr 18 stigum og 22 frlp. og skotnýtingu sem er fásén, 88% nýting!! Birkir Hrafn var flottur með 12 stig og Ísak skoraði 9 stig og hlóð í 13 stoðsendingar, hvorki meira né minna. Styrmir skoraði 7 stig og Skarphéðinn Árni 2. Sigmar átti góðan dag í vörninni með 3 stolnum boltum og 2 fráköstum og eins og fyrr getur fengu yngri strákarnir nokkrar mínútur og stóðu sig vel.

Í heildina var skotnýting Selfossliðsins góð, frábær hjá  mörgum leikmönnum og hvorki fleiri né færri en 6 leikmenn með um og yfir 40% þriggjastiganýtingu. Þá voru stoðsendingar liðsins 29, sem er afbragð.

Tölfræðiskýrslan

Staðan

Næsti leikur er á föstudaginn kemur, 10. mars kl. 19:15 gegn Hamri úti í Hveragerði. Selfyssingar eru hvattir til að gera sér ferð og styðja liðið.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Myndirnar tók Björgvin Rúnar Valentínusson