Í kvöld fengu Selfyssingar Hrunamenn í heimsókn í 5. umferð 1. deildarinnar. Fyrir leikinn höfðu Selfyssingar unnið einn leik og tapað þremur á meðan Hrunamenn höfðu unnið tvo og tapað tveimur. Góð mæting var í stúkuna enda um sannan Suðurlandsslag að ræða.

Leikurinn byrjaði nokkuð jafn og liðin skiptust á að skora, staðan 22-20 eftir 1. leikhluta. Í 2. leikhluta byrjuðu gestirnir að slíta sig frá heimamönnum með frábærum sóknarleik og náðu að koma stöðunni í 28-40. Selfyssingar náðu að svara fyrir sig og minnkuðu muninn niður í þrjú stig fyrir hálfleik, staðan 49-52.

Síðari hálfleikur var mjög jafn og spennandi og aðeins tvö stig skildu á milli liðanna þegar 4. leikhluti byrjaði. Hrunamenn byrjuðu 4. leikhlutann betur og voru lengi vel líklegri til að klára leikinn. Selfyssingar pössuðu sig hins vegar á því að hleypa þeim ekki of langt frá sér og náðu loks að jafna leikinn þegar 1:46 mín. voru eftir af leiknum. Það var svo Svavar Stefánsson sem gerði út af við leikinn með því að setja niður þrist þegar 44. sek. voru eftir af leiknum. Hrunamenn náðu ekki að nýta næstu sókn og neyddust til að brjóta. Ísar Jónsson fór á vítalínuna og kláraði leikinn fyrir Selfyssinga. Hrunamenn enduðu leikinn á þriggja stiga körfu en það dugði ekki til, lokatölur 98-96 Selfyssingum í hag.

Michael Asante og Birkir Hrafn Eyþórsson drógu vagninn fyrir heimamenn og skiluðu báðir 27 stigum. Ísak Perdue átti einnig frábæran leik með 17 stigum. Ísar Jónsson var með 9 stig, Arnór Eyþórsson 8 stig, Tristan Ottósson 5 stig og Svavar Stefánsson 5 stig.

Næsti leikur Selfoss er í Sandgerði á móti Þrótti Vogum. Leikur fer fram á föstudaginn eftir viku og byrjar kl. 19:15.

Tölfræði leiksins