Selfossstrákar spiluðu tvo leiki í gær, sunnudag, á Íslandsmótinu, og varð niðurstaðan sitt af hvoru tagi.

Ungmennaflokkur lék gegn sterku liði Njarðvíkur suður með sjó, um miðjan dag í Njarðtaksgryfjunni, og gekk með öruggan sigur af hólmi, úrslitin 80 – 101.

Ungmennaflokkur er nú næst á eftir Breiðabliki í töflunni í 1. deild, með stöðuna 7/3, en Blikar eru efstir með hlutfallið 8/1. Næsti leikur liðsins er á heimavelli mánudaginn 5. des. kl. 18:00, gegn sameiginlegu liði Stjörnunnar/Álftaness.

Þá spilaði 11. flokkur drengja við ÍR í TM hellinum í Breiðholti. ÍR-ingar eru ríkjandi Íslandsmeistarar og hafa reynst okkar mönnum erfiður ljár í þúfu undanfarin ár og engin breyting varð þar á í gær, ÍR vann 99 – 91. Selfossliðið er í þriðja sæti 1. deildar sem stendur (6/2), en Stjarnan er ósigruð í efsta sæti (10/0) og ÍR í öðru (7/2).

Næsti leikur liðsins er í Gjánni nk. föstudag kl. 19:30 gegn Stjörnunni b, sem er einnig sterkt lið, enda er Stjarnan með tvö lið í 1. deild í þessum aldursflokki.