Síðastliðinn laugardag flaug 9. flokkur drengja  frá Reykjavík til Egilsstaða til að keppa gegn Hetti. Þegar lent var fyrir austan var stefnan sett á matsölustað og ákveðið að labba frá flugvellinum í blíðunni, við mis mikla hrifningu leikmanna. Allir komust þó óskemmdir á áfangastað.

Þegar í leikinn var komið hafði Selfoss/Hamar yfirhöndina frá fyrstu mínútu og spilaði liðið á köflum flotta vörn, sem ásamt góðum sóknarleik skilaði 16 stiga forskoti í hálfleik, 22-38.

Strákarnir hélu áfram að sækja vel í seinni hálfleik, en Hetti gekk þá betur að leysa varnarþrautir gestanna og hélt þeim vel við efnið. Í upphafi 4. leikhluta náðu okkar menn að stilla betur saman strengina í vörninni og græddu á því mörg hraðaupphlaup, og ráku þannig smiðshöggið á verkefnið. Niðurstaðan 33 stiga sigur Selfoss/Hamars, 43-76.

Fjölnir Þór var stigahæstur í okkar liði með 29 stig en flestir menn á skýrslu skoruðu og allir lögðu sitt af mörkum og stóðu sig vel.

Ferðalagið var virkilega skemmtilegt fyrir hópinn og flottur útikörfuboltavöllur Egilsstaða við íþróttahúsið var að sjálfsögðu nýttur strax eftir leik og spilaður meiri körfubolti!

Selfoss/Hamar er í efsta sæti í 2. deild á Íslandsmótinu og hefur liðið staðið sig með stakri prýði og körfuboltaáhuginn, metnaðurinn og dugnaðurinn skín af hópnum.

-Hlynur Héðinsson, þjálfari.