Lið Selfoss mætti Sindra í 4. umferð 1. deildarinnar í Gjánni í Vallaskóla í kvöld. Gestirnir voru með yfirhöndina allan leikinn og unnu sannfærandi sigur, 86-101.

Sindri byrjaði leikinn mun betur. Gestirnir fengu mikið að auðveldum körfum í leikhlutanum og varð munurinn mestur 14 stig í stöðinni 11-25. Selfyssingar náðu aðeins að klóra í bakkann og voru búnir að minnka muninn í 19-30 í lok leikhlutans. Liðsmenn Sindra héldu uppteknum hætti í 2. leikhluta, þeir héldu áfram að fá auðveldar körfur og nýttu færin sín vel. Þegar liðin fóru inn í hálfleik voru gestirnir búnir að auka muninn í 38-54, með 54% skotnýtingu á móti 35% heimamanna. Seinni hálfleikur byrjaði betur fyrir heimamenn sem skoruðu fyrstu 8 stig strax í upphafi leikhlutans og náðu að minnka muninn í 10 stig. Gestirnir voru alltaf fljótir að svara öllum áhlaupum og héldu sínu myndarlegu forskoti 60-76 þegar liðin fóru inn í fjórða leikhluta. Byrjunin á lokaleikhlutanum var besti kafli Selfyssinga í leiknum, þeir náðu að minnka muninn niður 6 stig, með Trevon Evans og Gasper Rojko í farabroddi. En eins og áður, þá voru gestirnir fljótir að slökkva í öllum vonarneistum heimamanna og uppskáru sannfærandi sigur, 86-101.

Mætti segja að slæmur varnarleikur hafi verið banabiti Selfyssinga í leiknum, en gestirnir fengu allt of margar auðveldar körfur í leiknum.

Hjá Sindra reyndist erfitt að eiga við þríeykið Detrek Browning (31 stig), Anders Adersteg (31 stig) og Patrick Simon (20 stig) en þeir voru mjög atkvæðamiklir í stigaskori og fráköstum.

Fyrir utan vítaskotið sem hinn 16 ára gamli Styrmir Jónasson setti niður í lok leiks voru aðeins 4 leikmenn Selfoss sem skiluðu stigum á töfluna. Trevon Evans var líkt og áður atkvæðamikill með 34 stig og 5 stoðsendingar, Gasper Rojko átti góða kafla í leiknum og skilaði 28 stigum og reif niður 14 fráköst. Óli Gunnar Gestsson var með 15 stig og Vito Smojer 8 stig. Lið Selfoss spilar enn á Gerald Robinson sem er meiddur á tá.

Næsti leikur Selfoss er á mánudaginn kl. 19:15 þegar liðið tekur á móti ÍA í bikarnum.