Ríflega 30 manna hópur stúlkna og stráka frá Selfossi leggur í hann í nótt á Gautaborg Festival körfuboltabúðirnar, sem eru stærstu körfuboltabúðir Evrópu, skv. óljúgfróðum heimildum. Hópurinn er búinn að æfa grimmt undanfarið til að undirbúa sig sem best fyrir strandhögg í Svíaríki, eða í Austurvegi, svo gripið sé til lýsinga Íslendingasagnanna.
Karl Ágúst og Stefán Magni hafa haft veg og vanda af hinum faglega þætti undirbúningsins en öflugur hópur foreldra staðið í ströngu í hartnær 2 ár við fjáröflun og annað skipulag ferðarinnar.
Það eru 22 piltar og 9 stúlkur sem leggja land undir fót – eða kannski frekar loft undir vængi – og krakkarnir hafa m.a. kolefnisjafnað ferðalagið með því að gróðursetja þúsundir trjáplantna í samstarfi við Hekluskóga.
Selfoss-Karfa óskar hópnum góðrar ferðar og farsællar heimkomu. Ævintýrin gerast enn.