Skagfirðingarnir Hlynur Freyr Einarsson og Friðrik Hrafn Jóhannsson hafa ákveðið að ríða Kjöl í sumar og dvelja á Selfossi næsta vetur. Þeir munu leggja sín lóð á vogarskálarnar til að styrkja leikmannahópinn í bænum fyrir átökin í 1. deildinni.

Hlynur er tvítugur, sterkur framherji með hæfileika bakvarðar. Hann er ógnandi af þriggjastiga færi, með góðan leikskilning og öflugur í fráköstum. Hlynur var valinn besti leikmaður Tindastóls í unglingaflokki á liðnu tímabili.

Friðrik er ári eldri, snöggur leikstjórnandi/skotbakvörður, góður varnarmaður á bolta og með ólgandi baráttukrafti sínum er hann gaurinn sem öll lið þurfa til að halda mönnum á tánum.

Báðir eru þessir strákar afar vinnusamir og, sem er ómetanlegt, gegnheilir eðaldrengir.

Verið velkomnir á Selfoss, fóstbræður.