Fjögur lið Selfoss Körfu voru á ferðinni í deildakeppni yngri flokka um helgina og árangurinn góður, 75% sigurhlutfall, sem hlýtur að teljast viðunandi á kosningahelgi!

Selfoss b reið á vaðið í 10. flokki drengja á föstudagskvöld. Liðið mætti ÍR b á heimavelli í Gjánni og átti ekki í erfiðleikum með Breiðhyltinga að þessu sinni. Strákarnir léku við hvern sinn fingur og unnu 63-27.

Í gær, laugardag, spiluðu tvö liðanna á útivelli en eitt á heimavelli.

Á heimavelli í Gjánni mætti sameinað lið Selfoss/Hrunamanna/Hamars Valsstúlkum í 10. flokki kvenna. Eftir jafnræði fyrstu mínúturnar náði heimaliðið ágætum tökum á leiknum og jók forskotið jafnt og þétt fram að hálfleik. Valur rétti aðeins úr kútnum í þriðja leikhluta en ógnaði aldrei sigri heimastúlkna. Jafnræði var með liðunum í fjórða leikhluta, þjálfari SHH lét ekki kappið bera fegurðina ofurliði, heldur fengu allir leikmenn að njóta sín. Úrslitin 59-37 og liðið hefur nú unnið tvo leiki í röð. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá liðið ásamt þjálfara sínum, Ivica Petric, sem er nýkominn til landsins og var þarna að hitta stelpurnar í fyrsta sinn. Perla María Karlsdóttir var honum því til aðstoðar.  

Selfoss mætti KR í Frostaskjóli í 1. deild 10. flokks drengja. Selfossliðið mátti sætta sig við að tapa leiknum naumlega, 69-64, og gerir ritari ráð fyrir því að drengirnir séu ekki sáttir við þá niðurstöðu og muni bíta í skjaldarrendur og mæta tilbúnir í næsta leik.

Að lokum renndi lið Selfoss/Hamars í 9. flokki drengja upp á Laugarvatn og mætti þar liði Laugdæla/Hrunamanna.  Uppsveitamenn réðu ekki við lágsveitunga og úrslitin 32:62 Selfoss/Hamri í vil.