Það verður boðið upp á nágrannarimmu í Gjánni í kvöld þegar Selfoss og Hrunamenn eigast við í 1. deild karla kl. 19:15.

Liðin eru á svipuðum slóðum í töflunni, Selfoss með 16 stig en Hrunamenn 14, í þéttum fjögurra liða „pakka“ um miðbik deildarinnar.

Selfoss vann báðar fyrri viðureignirnar í vetur, 15 stiga sigur á heimavelli í september og með 5 stigum á Flúðum í byrjun desember, og er því með betri innbyrðis stöðu, hvernig sem fer í kvöld.

Bæði lið vilja snúa við taflinu, en Selfoss hefur tapað síðustu 4 leikjum sínum og Hrunamenn síðustu tveimur, síðast á flautukörfu gegn Hamri.

Staða liðanna er nokkuð breytt frá fyrri viðureignum, Hrunamenn hafa styrkt leikmannahópinn með nýjum leikmönnum á meðan Selfoss hefur skipt inn í sinn leikmannahóp kornungum strákum úr yngriflokkastarfinu, fyrir eldri og reyndari menn, og undirbýr sig með því til lengri framtíðar en næstu leikja á þessu keppnistímabili.

Viðureignir þessara nágrannafélaga hafa alltaf verið skemmtilegar og því ástæða til að hvetja fólk til að næta og styðja sitt lið.

ÁFRAM SELFOSS!!!