Það var spenna og fjör í Gjánni í gærkvöldi, eins og við var að búast, þegar Selfoss og Hrunamenn mættust í 1. deild karla. Gengið sveiflaðist mjög milli liðanna, 8 sinnum var jafnt og 8 sinnum skiptust þau á forystu, en Selfossliðið átti síðasta orðið og tryggði sér sigurinn með vel útfærðum aðgerðum á lokakaflanum og síðustu sekúndurnar nægðu gestunum ekki til að jafna fjögurra stiga mun. Úrslitin 100-98.

Eftir 5 mínútna leik var jafnt 9-9 en þá spýtti Ahmad Gilbert í lófana, skoraði hverja körfun á fætur annarri og leiddi Hrunamenn til öndvegis. Selfoss svaraði fyrir sig og minnkaði muninn í 4 stig fyrir lok fyrsta leikhluta, 18-22. Selfoss komst yfir 25-24 en aftur sigu gestirnir framúr, mest 12 stigum, en staðan í hálfleik 38-48. Leikmenn Selfoss mættu mjög einbeittir í seinni hálfleikinn, vörnin styrktist og sóknarleikurinn var skemmtilegur á að horfa, mikill hraði, góðar sendingar og samvinna. Hittnin var lygileg og liðið skoraði 40 stig í þriðja leikhluta. Það varð 24 stiga sveifla á stuttum tíma, því Selfoss var skyndilega kominn 12 stigum yfir, 68-56, eftir 6 mín. í þriðja fjórðungi. Vitaskuld girtu Hrunamenn sig í brók og sóttu á, helminguðu forystu Selfyssinga fyrir síðustu fjórðungaskipti, 78-72, og allar helstu leiðir greiðfærar. Síðasti fjórðungur var svokallaður „naglbítur“, Selfoss þó alltaf skrefinu á undan og setti „stór skot“ af þriggjastiga færi síðustu tvær mínúturnar til að hafa örlítið andrými. Þegar lítið var eftir munaði 6 stigum, 95-89, en þá skoraði Eyþór Orri þrist úr þröngri stöðu og opnaði allt upp á gátt. En Ísak Júlíus lokaði dyrunum með vítaskoti, 100-96 þegar rúmar 4 sekúndur voru eftir og Hrunamenn áttu þess ekki kost að jafna á þeim tíma, þó þeir skoruðu síðustu körfuna.

Það má segja að Selfoss hafi unnið þennan leik á meiri liðsbrag, framlagi frá fleiri leikmönnum. Því þó Gilbert sé svakalega góður þá er oftast betra að fá fleiri hendur á dekk. Til samanburðar tók Gilbert 37 af 83 skotum Hrunamanna, eða 45% allra skota liðsins, en hinn geðþekki, tvítugi strákur, Kennedy Clement Aigbogun, sem skaut mest Selfyssinga, tók 15 skot eða 21% af körfuskotum Selfoss, þar af 5/9 eða 56% af þriggjastigafæri. Gilbert skoraði að vísu 39 stig, tók 15 fráköst, gaf 7 stoðsendingar og skilaði 37 framlagspunktum, en hitti 1/9 af þriggjastigafæri, og hugsanlega hefðu aðrir mátt taka eitthvað af þeim skotum í opnari stöðu. Allir þrír, Eyþór Orri (9 stig), Friðrik Heiðar (21 stig) og Yngvi Freyr (6 stig) hittu 50% úr þristum (2/4) og Óðinn Freyr, sem er góð skytta, tók ekki eitt skot í leiknum. Þessir strákar eru engir aukvisar, og leikmenn eins og t.d. Eyþór Orri sem skýtur 60% mætti að skaðlausu taka meira en 5 skot í leik.

Næstur á eftir Gilbert var Samuel Burt atkvæðamestur Hrunamanna með 22 stig og 16 fráköst, heila 34 í framlag, mjög duglegur leikmaður og ósérhlífinn og Arnór Bjarki bæti við því eina stigi sem vantar í upptalninguna hjá Gullhreppsmönnum.

Fyrir utan fremur linkulegar upphafsmínútur var góður og skemmtilegur bragur á Selfossliðinu í gær. Eftir að menn sneru sig í gang og kveiktu á þokuljósunum var góð stemmning í hópnum og betri liðsbragur en oft áður, fleiri stoðsendingar (25), meiri hreyfanleiki án boltans til að opna fyrir næsta mann, gott flæði og mikið af opnum skotum.

Kennedy var alveg frábær og þó mikið reyni á hann í varnarleiknum gegn besta sóknarmanni andstæðinganna, þá var hann líka eldsprækur í sókninni, skaut 5/6 af styttra færi og 5/9 af því lengra, 27 stig og 33 framlagspunktar. Hann tók 8 fráköst og varði 2 skot glæsilega, auk þess að troða boltanum nokkrum sinnum með tilþrifum í körfuna, aðdáendum sínum af yngri kynslóðinni til upplyftingar. Gerald var traustur og góður, með 20 stig , 7 fráköst og 2 stolna bolta, ekki að reyna of mikið sjálfur heldur hluti af liðsheildinni og greip gæsirnar þegar þær gáfust.

Arnaldur átti enn einn skínandi leikinn með 19 stig, 8 fráköst, 2 varin og 18 í framlag og Ísak reif sig heldur betur í gang, eftir aðeins losaralega byrjun, og dreif liðið áfram með hvorki fleiri né færri en 12 stoðsendingum, auk 11 stiga og 6 frákasta. Ísar Freyr var líka öflugur með 12 sig, 6 stoðsendingar og flotta nýtingu. Hann hefur í vetur þroskast upp í afbragðsleikmann, kemur með áræðni og þor inn í hvern leik og hefur náð þeim stöðugleika sem er nauðsynlegur grunnur fyrir enn frekari framförum.

Birkir Hrafn er 6. leikmaður Selfoss sem skilaði 10+ í framlag, 6 stig, 3 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 stolnir er flott tölfræðilína fyrir 16 ára strák. Styrmir skoraði ekki að þessu sinni en skilaði vel sínu hlutverki í varnarleiknum. Síðast en ekki síst frumsýndi liðið Birki Mána Sigurðarson á parketinu. Hann var einn af fimm 11. flokks strákum í liðinu í gær og spilaði sínar fyrstu mínútur í meistaraflokki, kom ódeigur inn og tók sín opnu skot, setti niður þrist og tvö af þremur vítum eftir að brotið var á honum í skoti.

Selfoss er eftir þenna sigur með 18 stig í 6. sæti deildarinnar, jafnfætis Fjölni sem þó er ofar vegna innbyrðis viðureigna. Skallagrímur klifrar jafnt og þétt upp töfluna og er nú í ágætum málum í 4. sætinu en baráttan um 5. sætið og það síðasta inn í úrslitakeppnina verður spennandi. Það er nóg eftir, 7 umferðir og allt getur gerst.

Tölfræðiskýrslan

Staðan í deildinni

Næsti leikur Selfoss er erfiður útileikur gegn toppliði Álftaness mánudaginn 20. febrúar en næsti heimaleikur föstudaginn 24.02. gegn Skagamönnum.

ÁFRAM SELFOSS!!!