Chris Caird – Aðalþjálfari

Aðalþjálfari í Körfuboltaakademíu FSu er Christopher Caird. Caird er Englendingur sem kom til Íslands haustið 2007 til að hefja nám við akademíuna sem þá var nýlega stofnsett. Hann nam við akademíuna í tvö ár en hélt þá til náms við Marshalltown Community College  í Bandaríkjunum í eitt ár en nam síðan við Drake University, og lék jafnframt með liðum skólanna við góðan orðstír. Hann var valinn „Academic All American“ og var „All American nominee“ í Marshalltown, talinn einn af 5 bestu leikmönnum ársins í landinu.

Chris lauk prófi í umhverfisverkfræði frá Drake vorið 2015 og þá lá leið hans aftur á Selfoss. Hann lék með FSu í Dominosdeildinni keppnistímabilið 2015-2016. Vorið 2016 samdi hann við Tindastól og var hjá liðinu til vors 2018, þegar Selfoss-Karfa réð hann til starfa sem aðalþjálfara karlaliðs félagsins og unglingaflokks karla og sem aðstoðarþjálfara við körfuboltaakademíuna.  Vorið 2019 tók Chris við sem aðalþjálfari Akademíunnar.

Chris hefur töluverða reynslu af þjálfun yngri iðkenda. Hann stýrði m.a. unglingaflokki FSu og  yngriflokkaþjálfun hjá Umf. Hrunamanna 2015-2016, þjálfaði marga yngri aldursflokka hjá Tindastóli 2016-2018 og hefur kennt í körfuboltabúðum fyrir unglinga í Bandaríkjunum, í Portúgal og á Íslandi. Þá var hann aðstoðarþjálfari meistraflokks karla hjá Tindastóli tímabilið 2017-2018.  Chris hefur undanfarin ár sótt þau þjálfaranámskeið sem í boði hafa verið hér á landi, auk námskeiða erlendis.

Rui Costa – Aðstoðarþjálfari

Aðstoðarþjálfari Akademíunnar er Rui Costa. Hann er Portúgali með meira en 10 ára reynslu af þjálfun allra aldurshópa karla og kvenna og hefur sérhæft sig í að vinna með og þróa hæfileika ungra leikmanna.

Costa er með hæstu þjálfaragráðu í Portúgal, með réttindi til að stjórna landsliðum á hæsta getustigi,  og hefur þjálfað og stjórnað þjálfunáætlunum hjá nokkrum félögum. Nú síðast var hann aðstoðarþjálfari kvennaliðs CLIP sem fór upp í portúgölsku 1. deildina. Að auki var hann aðalþjálfari U19 ára kvennaliðs félagsins sem vann tvo meistaratitla í Portúgal og héraðsmeistaratitil.

Hann var einnig aðalþjálfari U16 ára liðs drengja sem vann meistaratitil þrjú ár í röð og hefur þjálfað og stjórnað mörgum körfuboltabúðum á sumrin.

Megin markmið hans sem þjálfari er nákvæmnisvinna í grunnatriðum körfuboltans og að hjálpa þannig leikmönnum að vaxa og dafna, ekki aðeins í boltanum heldur einnig sem einstaklingar. Þessir eiginleikar vógu þungt þegar hann var valinn, úr stórum hópi hæfra umsækjenda, sem þjálfari og kennari við Akademíuna.

Jafnframt starfi sínu við Körfuboltaakademíuna er Rui Costa aðstoðarþjálfari Selfoss Körfu í m.fl. karla og í þjálfarateymi yngriflokka félagsins.

Stefán Magni Árnason – Sjúkraþjálfari

Aðal sjúkraþjálfari Selfoss-Körfu og akademíunnar er Stefán Magni Árnason. Hann er upp runnin á Skeiðunum, í nágrenni Selfoss, og er fyrrum nemandi FSu. Stefán Magni fékk sitt körfuboltauppeldi á Flúðum hjá Umf. Hrunamanna en skipti snemma yfir í Selfoss. Í kjölfar þrálátra meiðsla breytti hann að komu sinni að íþróttum og lauk BS gráðu í íþróttafræðum frá Háskóla Íslands árið 2003. Hann starfaði í kjölfarið sem íþróttakennari og körfuboltaþjálfari í öllum aldurshópum á Hellu, og síðar hjá FSU/Selfossi, áður en hann hóf nám í sjúkraþjálfun árið 2012. Vorið eftir að hann útskrifaðist sem sjúkraþjálfari frá HÍ hóf hann störf á sjúkraþjálfunarstöðinni Mætti á Selfossi, þar sem hann starfar enn.

Máttur – sjúkraþjálfun er sjálfstæð stöð sem veitir meðferð við alls kyns stoðkerfisvandamálum. Stöðin er vel tækjum búin og þar starfa nokkrir af bestu sérfræðingum landsins í meðferð íþróttameiðsla, og vinna m.a. með bæði yngri og A-landsliðum Íslands í körfubolta, handbolta, fótbolta og blaki.

Jáverk
Set
Hótel Selfoss
Höldur
Ræktó
Ræktó
Ræktó