Chris Caird – Aðalþjálfari

Aðalþjálfari í Körfuboltaakademíu FSu er Christopher Caird. Caird er Englendingur sem kom til Íslands haustið 2007 til að hefja nám við akademíuna sem þá var nýlega stofnsett. Hann nam við akademíuna í tvö ár en hélt þá til náms við Marshalltown Community College  í Bandaríkjunum í eitt ár en nam síðan við Drake University, og lék jafnframt með liðum skólanna við góðan orðstír. Hann var valinn „Academic All American“ og var „All American nominee“ í Marshalltown, talinn einn af 5 bestu leikmönnum ársins í landinu.

Chris lauk prófi í umhverfisverkfræði frá Drake vorið 2015 og þá lá leið hans aftur á Selfoss. Hann lék með FSu í Dominosdeildinni keppnistímabilið 2015-2016. Vorið 2016 samdi hann við Tindastól og var hjá liðinu til vors 2018, þegar Selfoss-Karfa réð hann til starfa sem aðalþjálfara karlaliðs félagsins og unglingaflokks karla og sem aðstoðarþjálfara við körfuboltaakademíuna.  Vorið 2019 tók Chris við sem aðalþjálfari Akademíunnar.

Chris hefur töluverða reynslu af þjálfun yngri iðkenda. Hann stýrði m.a. unglingaflokki FSu og  yngriflokkaþjálfun hjá Umf. Hrunamanna 2015-2016, þjálfaði marga yngri aldursflokka hjá Tindastóli 2016-2018 og hefur kennt í körfuboltabúðum fyrir unglinga í Bandaríkjunum, í Portúgal og á Íslandi. Þá var hann aðstoðarþjálfari meistraflokks karla hjá Tindastóli tímabilið 2017-2018.  Chris hefur undanfarin ár sótt þau þjálfaranámskeið sem í boði hafa verið hér á landi, auk námskeiða erlendis.

Srdjan Stojanovic – Aðstoðarþjálfari

Srdjan lék fyrstu fimm ár sín sem atvinnumaður í Serbíu, hóf ferilinn í 2. deild en síðan í úrvalsdeildinni þar í
landi. Frá Serbíu hélt Srdjan til Ungverjalands og spilaði í tveimur efstu deildunum þar. Í Ungverjalandi hóf
hann þjálfaraferilinn, þjálfaði 10-15 ára krakka hjá félaginu sem hann lék með.
Að loknum þremur árum í Ungverjalandi kom Srdjan til Íslands. Hann lék með Fjölni í 1. deild og hjálpaði
liðinu upp í Dominó‘s deildina, sem svo hét þá (Subway deildin), ásamt því að þjálfa yngri flokka félagsins. Á
öðru ári með Fjölni færði hann sig um set til Þórs Akureyri, sem einnig lék í efstu deild, og fór með liðinu í
úrslitakeppni úrvalsdeildar, og hélt áfram þjálfun fyrir norðan.

Á síðasta ári lék Srdjan með UCD í Dublin á Írlandi og vann jafnframt sem körfuboltaþjálfari í tveimur
skólum.

Chris Caird um Srdjan: „Srdjan er ein besta skyttan sem leikið hefur á Íslandi síðustu árin og ég held að hann
geti kennt nemendum akademíunnar ýmislegt þegar kemur að þessum mikilvægasta hæfileika í körfubolta.
Hann hefur líka þann metnað sem til þarf til að auka þekkingu sína og bæta sig sem þjálfari, með áherslu á
tækni. Við fögnum því að fá í akademíuna þá fagmennsku og vinnusemi sem einkenna Srdjan.“

Jonas Rusom – Aðstoðarþjálfari

Jonas hóf leikmannsferil sinn í ýmsum deildum í heimalandi sínu, Svíþjóð, en hélt síðan í háskólaboltann í
BNA og lék fyrir Fisher College/Hagerstown CC. Frá Bandaríkjunum fór Jonas heim til Evrópu og lék fyrir
Llica d‘Amunt (Copa Catalunya, Barcelona), Nässjo Basket (SBL, Svíþjóð) og Alvik Basket (SEH, Svíþjóð).
Jonas hefur þegar töluverða reynslu sem þjálfari yngri leikmannna, bæði drengja og stúlkna á ýmsum aldri,
og einnig af einstaklingsþjálfun, sem er mikilvægur þáttur í akademíunni.

Chris Caird um Jonas: „Jonas er bakvörður með mikla hæfileika og getur hjálpað nemendum okkar að bæta
með vinnusemi skottækni sína, boltameðferð og sendingar. Ég hlakka til að vinna með Jonasi og sjá hvaða
áhrif hann hefur fram að færa.“

Jáverk
Set
Hótel Selfoss
Höldur
Ræktó
Ræktó
Ræktó