Aðalfundur Körfuknattleiksfélags Selfoss (Selfoss körfu) var haldinn í Vallaskóla þann 20.mars síðastliðinn, kl. 20, þar sem hefðbundin aðalfundarstörf fóru fram. Guðbjörg Bergsveinsdóttir formaður félagsins setti fundinn og lagði til að Ragnhildur Sveinbjarnardóttir yrði fundarstjóri og Guðbjörg Sigríður Kristjánsdóttir yrði fundarritari sem var samþykkt af fundinum.

Formaður fór yfir starfsemi félagsins árið 2023 en ýmsar breytingar urðu hjá félaginu á síðasta ári. Nýr þjálfari meistaraflokks kom til starfa sem einnig er yfirþjálfari yngri flokka. Talsverð fjölgun hefur orðið í yngri flokkum félagsins í vetur, sem er frábært. Einnig hefur fjölgað á pöllunum hjá okkur í vetur sem er þróun sem heldur vonandi áfram í ár með okkar unga og efnilega liði. Vel hefur gengið í fjáröflunum og verið bryddað upp á skemmtilegum nýjungum á þeim vettvangi, m.a. páskahappdrætti, Selfoss mótinu í minnibolta, jólabingó og partýbingó.

Linda Rós Jóhannesdóttir gjaldkeri fór svo yfir ársreikning félagsins en niðurstaða ársins 2023 var tæplega 1,9 milljónir í hagnað.

Því næst var kosið til formanns og stjórnar en Guðbjörg Bergsveinsdóttir gaf kost á sér áfram sem formaður og ekki komu fram mótframboð svo hún hlaut kosningu fundarins til að sinna áfram starfi formanns Selfoss Körfu. Anna Valgerður Sigurðardóttir og Guðmundur Ármann Böðvarsson höfðu óskað eftir að láta af störfum í stjórn félagsins og þökkum við þeim kærlega fyrir sitt framlag til félagsins á vettvangi stjórnar. Þau halda þó áfram starfi fyrir félagið en Anna tekur sæti í barna- og unglingaráði og Guðmundur heldur áfram í meistaraflokksráði. Aðrir stjórnarmenn gefa kost á sér áfram. Tvö framboð bárust til stjórnar en þau Sigursveinn Sigurðsson og Sylvía Karen Heimisdóttir gefa kost á sér til stjórnarsetu. Fundurinn samþykkti þessa sex fulltrúa í stjórn félagsins.

Stjórn félagsins 2024/2025 verður því:
Guðbjörg Bergsveinsdóttir, formaður
Linda Rós Jóhannesdóttir
Guðbjörg Sigríður Kristjánsdóttir
Ragnhildur Sveinbjarnardóttir
Þórey Helgadóttir
Sigursveinn Sigurðsson
Sylvía Karen Heimisdóttir

Þá var komið að kjöri skoðunarmanna félagsins en undanfarin ár hafa Gísli Jósep Hreggviðsson og Sigríður Elín Sveinsdóttir gegnt þessu hlutverki og hafði Gísli óskað eftir að hætta en Sigríður gaf kost á sér áfram. Jóhanna Hallbjörnsdóttir bauð fram krafta sína sem skoðunarmaður sem var samþykkt af fundinum. Þökkum Gísla Jósep Hreggviðssyni fyrir sitt framlag undanfarin ár við yfirferð reikninga.

Önnur mál voru ekki á dagskrá og fundi slitið kl. 20:30.