Selfyssingar mættu ÍR í kvöld í 2. leik liðanna í 8-liða úrslitum 1. deildarinnar. Fyrsti leikur liðanna endaði með 13 stiga sigri ÍR-inga og var leikurinn í kvöld því mikilvægur fyrir heimamenn til að laga stöðuna í einvíginu. Ánægjulegt var að sjá hversu fjölmennt var í stúkunni og góð stemning á leiknum.

Gestirnir úr Breiðholtinu byrjuðu leikinn af krafti og áttu Selfyssingar fá svör við sóknarleiknum þeirra. Sóknarleikur Selfyssinga byrjaði líka heldur brösuglega og enduðu ÍR-ingar skora 27 stig í leikhlutanum gegn 16 stigum Selfyssinga. Vojtech Novák virtist vera eini leikmaðurinn hjá Selfossi sem mætti tilbúinn til leiks. Í öðrum leikhluta rankaði Tykei Greene við sér, ásamt fleiri leikmönnum, og byrjaði að raða niður stigum fyrir heimamenn. Þó að sóknarleikur Selfyssinga hafi litið gæfulegri út var ÍR ekkert á því að stíga á bremsuna, þeir héldu áfram uppteknum hætti og leiddu þegar liðin fóru inn í hálfleik, 42-59. Erfið brekka framundan fyrir heimamenn í seinni hálfleik.

Þriðji leikhluti var mjög rólegur miðað við fyrstu tvo. ÍR-ingar tóku algjöra U-beygju í sóknarleiknum sínum og skoruðu ekki nema 12 stig í leikhlutanum. Selfyssingar hefðu mátt nýta sér þetta betur en þeir skoruðu aðeins 16 stig í 3. leikhluta. Eftir leikhlutann kviknaði von í heimamönnum og þeir fóru að saxa smátt og smátt á forustu ÍR-inga. Gestirnir áttu því miður svör við áhlaupi heimamanna, sem náðu að minnka muninn niður í 7 stig í 4. leikhluta. Stóru skotin fóru niður hjá ÍR-ingum í lokin og hausinn hjá leikmönnum Selfoss fauk út um gluggann. Lokastaðan í leiknum 78-90 og annar sigur ÍR í höfn.

Atkvæðamestir í liði Selfyssinga voru Tykei Greene með 32 stig og 8 fráköst og Birkir Hrafn með 15 stig. Ísar Jónasson skoraði 14 stig, Vojtech Novák 12 stig og Tristan Ottósson 5 stig.

Ljóst er að Selfyssingum bíður verðugt verkefni fyrir höndum næsta föstudag þegar liðin mætast í 3. leik seríunnar. ÍR-ingar, sem eru komnir í 2-0, hafa möguleikann á að sópa Selfyssingum úr úrslitakeppninni og senda þá í sumarfrí. 

Áfram Selfoss!

 

Tölfræði leiksins