Selfoss mætti toppliði Álftaness í gær í síðasta heimaleiknum fyrir jólafrí í 1. deild karla. Leikurinn var jafn alveg fram í fjórða leikhluta en þá sigu gestirnir fram úr á reynslunni og unnu að lokum 12 stiga sigur, 79-81.

Það er ekki tilviljun að Álftanes er í öruggu sæti efst í deildinni, liðið hefur á að skipa þremur reyndum og sterkum erlendum atvinnumönnum og hefur að auki í sínum herbúðum marga þrautreynda íslenska leikmenn sem leikið hafa í efstu deild og verið að árum saman.

Það var jafnt á mörgum tölum í fyrsta leikhluta en Selfoss leiddi 22-18 að honum loknum, og hélt smáu forskoti vel fram í annan leikhluta. Jafnt var í hálfleik, 45-45. Álftanes skoraði fyrstu tvær körfurnar í seinni hálfleik og gaf forystuna ekki eftir þaðan í frá, leiddi með 10 stigum, 57-67, eftir 28 mínútur en 7 stigum munaði fyrir síðasta fjórðung, 62-69. Ekki komst Selfoss nær en það, 7-10 stigum munaði á liðunum, og fór mest í 14 stig, 74-88, og gestirnir sigldu þessu heim á reynslunni nokkuð áhyggjulítið.

Stojanovic, Bowen og Stipcic voru erfiðir við að eiga, og aðrir Álftnesingar með eitthvert hlutverk eru engir aukvisar; Dúi Þór, Eysteinn Bjarni og Pálmi Geir, allt reyndir, og jafnvel þrautreyndir, kappar sem kunna sitt fag.

Tvítugir strákar og yngri fóru fyrir Selfossliðinu, Kennedy stigahæstur með 23 stig og 28 framlagspunkta, 70% skotnýtingu og 5 fráköst. Ísak Júlíus var einnig firnagóður með 21 stig, 6 fráköst og 10 stoðsendingar og Arnaldur setti 14 stig og tók 5 fráköst. Birkir Hrafn var líka flottur með 10 stig, en það munaði verulega um að Gerald skoraði bara 9. Álftnesingar tvöfölduðu alltaf á hann í teignum og þriggjastigaskotin duttu ekki að þessu sinni, 1/11 af því færi hjá honum setti töluvert strik í reikninginn, og almennt var þriggjastiganýtingin hjá liðinu slök, eða 30%, og má segja að Kennedy hafi haldið því að mestu uppi með sínum rúmum 70%. Ísar Freyr bætti við þeim 2 stigum sem upp á vanta.

Aðeins 8 leikmenn voru á skýrslu hjá Selfossi að þessu sinni, bæði 11. flokksliðin að spila leiki fyrr um daginn og því fámennt í meistaraflokkshópnum, en hvert sæti samt vel skipað af ungum og efnilegum toppmönnum sem við erum afar stolt af.

Nú er einn leikur eftir í 1. deild fram að jólafríi, gegn ÍA vestur á Akranesi næstkomandi föstudag, 16. des. kl. 19:15.

ÁFRAM SELFOSS!!!