Selfossliðið hélt hálf laskað vestur á firði í gær til að etja kappi við Vestra í 1. deild karla. Eftir jafnan og æsispennandi leik náðu strákarnir okkar að knýja fram sigur á síðustu stundu, 74-77. Þetta var mjög mikilvægur sigur og heldur Selfossliðinu í seilingarfjarlægð frá næstu liðum fyrir ofan, og þar með inni í baráttunni um sæti í úrslitakeppni um sæti í Dominósdeildinni.

Þaða var ekki árennilegt verkefni sem beið sunnanmanna fyrir vestan, því báðir miðherjar liðsins voru fjarri góðu gamni, en Vestri teflir fram besta miðherja deildarinnar. Framherjarnir okkar þurftu því heldur betur að girða sig í brók ef til að liðið eygði möguleika á sigri. Huggun var hami gegn fyrir Selfyssinga að kraftframherji Ísfirðinga var floginn af landi brott og því bara við einn nánast ómennskan leikmann að eiga í teignum.

Selfossliðið spilaði svæðispressu og í framhaldinu svæðisvörn allan leikinn og náði þannig að hægja mjög á leik Vestra, sem eyddi iðulega 8-10 sekúndum í að koma sér upp völlinn og setja upp sóknarleikinn. Þetta var sennilega lykillinn að sigrinum, ásamt góðri baráttu og skynsemi í lokin.

Vestri var yfir 70-68 þegar lítið var eftir en við vorum sterkari á lokasprettinum, skoruðum 9 stig gegn 4 síðustu 2 mínúturnar og fögnuðum sigri.

Nebojsa og Nemanja Knezevic voru eins og jafnan yfirburðamenn í liði Vestra, enda 2 af 3-4 bestu leikmönnum deildarinnar. Nebojsa skoraði 24 stig, tók 14 fráköst og gaf 8 stoðsendingar, hvorki meira né minna, 34 í framlag. Nemanja  setti 22 stig, tók sín 19 fráköst, fiskaði 14 villur og gaf 4 stoðsendingar, 35 í framlag. Ingimar Aron skoraði 13 stig, hinn kornungi byrjunarliðsmaður Hugi Hallgrímson 7, Gunnlaugur Gunnlaugsson 6 og Hilmir Hallgrímsson 2 stig.

Fyrir Selfoss skoraði Michael Rodriguez 18 stig, tók 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar, en skotnýtingin dregur framlagseinkunnina niður í 15. Snjólfur skoraði 13 stig, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar, Chris Caird setti 11 stig, þar af baneitraðan þrist úr horninu á ögurstundu í lokin, og tók 4 fráköst, Arminas var líka með 11 stig og 4 fráköst, Björn Ásgeir og Svavar Ingi 8 stig hvor, Ari skoraði 6 stig úr 4 skotum og tók 4 fráköst og Haukur Hlíðar Ásbjarnarson skoraði 2 stig. Hlynur Freyr var sá eini sem ekki setti stig á töfluna en stóð sig vel engu að síður.

Þegar tölfræðin úr leiknum er skoðuð sést að Vestri hafði yfirhöndina á flestum sviðum; skotnýtingu, vítanýtingu, fráköstum, stoðsendingum, villum og framlagi. Selfoss er með betri þriggjastiganýtingu, færri tapaða bolta og fleiri stolna; og það sem mestu skiptir: Fleiri stig skoruð.

Næsti leikur er sem sagt Geysisbikarleikur í Borgarnesi annað kvöld og svo síðasti deildarleikurinn nk. föstudagskvöld heima í Gjánni.

ÁFRAM SELFOSS!!!