Aðalfundur Selfoss-Körfu var haldinn í gær, í skugga veirufaraldurs. Hefðbundnir dagskrárliðir voru fljótafgreiddir, með tveggjametrabili og án atrennu. Litlar breytingar voru gerðar á stjórn félagsins, formaður endurkjörinn án mótframboðs og kosningaræðu. Ein breyting varð á hópi sex annarra stjórnarmanna. Guðný Ingibjörg Rúnarsdóttir tók sæti Auðar Róseyjardóttur, sem starfað hefur fyrir félagið mörg undanfarin ár af miklum krafti. Henni ber að þakka fyrir sitt ómetanlega framlag. Jafnframt er Guðný boðin velkomin til starfa.

Mestur tími fór í ársreikninginn, af lögbundnum dagskrárliðum. Um hann er í stuttu máli að segja það mikilvægasta, að rekstrarniðurstaðan er réttum megin við núllið, hagnaður án fjármagnsliða 322.828 en niðurstöðutalan 77.985. Þó gleðjast megi yfir því er samt sem áður áhyggjuefni að hagnaður af reglulegri strafsemi minnkar nú þriðja árið í röð, var tæpar 400 þúsund krónur í fyrra, og ljóst að ekkert má út af bera í því skrykkjótta sjóðstreymi sem félagið býr við, að ekki sé talað um algera óvissu vegna þykkra kólgubakka við haustsjónarrönd. Fundurinn samþykkti ársreikninginn samhljóða en jafnframt sendi hann skýr skilaboð um að fara að öllu með gát næstu mánuði.

Smávægilegar orðalagsbreytingar voru samþykktar á lögum félagsins, skv. ábendingum frá ÍSÍ.

Undir liðnum önnur mál var rætt um alþjóðlegt samstarf sem félagið vinnur að, en einnig töluvert um samstarf við nágrannafélögin, bæði það sem þegar er í farvegi og möguleika á útvíkkun þess. Fundurinn hvatti til aukins samstarfs, enda gagnist það öllum aðilum og, ekki síst, iðkendunum, börnum og ungmennum á svæðinu. Stjórn var falið að vinna að því sérstaklega að efla stúlkna- og kvennastarf á samstarfsgrundvelli.

Ýmis fleiri mikilvæg mál voru reifuð, s.s. framtíðarstefnumótun varðandi m.fl. karla, þjálfaramál í yngstu aldursflokkunum og mögulegar fjáröflunarleiðir.

Stjórn félagsins 2020-2021 er þannig skipuð:

Formaður: Gylfi Þorkelsson

Meðstjórnendur: Eyþór Frímannsson, Guðný Ingibjörg Rúnarsdóttir, Jóhanna Hallbjörnsdóttir, Ólafur Valdín Halldórsson, Trausti Jóhannsson, Þorbjörn Jónsson.