Selfoss mætti Subwaydeildarliði Hattar í kvöld í Gjánni í 16 liða úrslitum VÍS-bikarsins. Höttur er með þéttan leikmannahóp og vel samhæfðan og hefur farið vel af stað í úrvalsdeildinni í haust þannig að búast mátti við leik kattarins að músinni gegn neðrideildarliði okkar Selfyssinga. Það varð þó ekki raunin, strákarnir okkar stóðu sig með mikilli prýði og Höttur sigraði að lokum með 9 stiga mun, 83-92.

Selfoss byrjaði af krafti og hafði náð 12 stiga forystu eftir 6 mínútur, 16-4. Gestirnir voru þó fljótir að átta sig, jöfnuðu 17-17, en Selfyssingar leiddu með einu stigi að loknum fyrsta leikhluta, 22-21. Heimamenn héldu forystunni fram yfir miðjan annan hluta, 35-30 eftir 16 mínútur, en Höttur komst yfir 35-37, og leiddi þaðan í frá til leiksloka. Staðan í hálfleik 43-48.

Eftir 7 mínútur í seinni hálfleik náði Höttur mestri forystu, 14 stigum í stöðunni 52-66, og 11 stigum munaði þegar þriðja leikhluta lauk, 61-72. Selfoss minnkaði muninn en komst aldrei nær en 6 stig, 73-79 0g aftur 83-89 þegar mínúta var eftir. Sóknir Selfoss misfórust úr því, gestirnir skoruðu síðustu 3 stigin og unnu eins og áður sagði 83-92.

Erlendu atvinnumennirnir voru atkvæðamiklir hjá Hetti, Ramos bestur með 25 stig og 27 framlagspunkta. Guers (16) og Trotter (15) komu næstir í stigaskori og Navarro var öflugur með 11 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Adam Eiður skilaði sínu og vel það með 11 stig og 5 fráköst en Knezevic náði sér ekki á strik, setti þó 4 stig úr vítum. Andri Björn setti einn þrist og Benedikt Hjarðar 2 stig eftir sóknarfrákast.

Srdjan fór fremstur í liði Selfoss með 21 stig, 11 stoðsendingar og 5 fráköst, 23 framlagspunkta. Gerald var með 15 stig og 7 fráköst og þá eru upp taldir reynsluboltar í Selfossliðinu. Strákarnir sem eftir standa stóðu sig afar vel. Kennedy skilaði 16 stigum, 5 fráköstum, 3 vörðum skotum 20 framlagspunktum og spilaði góða vörn að vanda. Arnaldur heldur sínu striki frá síðustu leikjum og er í stöðugri sókn sem leikmaður. Hann skoraði 12 stig með 50% nýtingu og tók 11 fráköst, 20 framlagspunkta. Það sama má segja um Ísak Júlíus sem spilar vel í hverjum leik, mikill stöðugleiki hjá honum og ekkert stress með boltann gegn sterkum varnarmönnum. Ísak skoraði 14 stig og nýtti 50% skotanna. Ísar Freyr skoraði 3 stig og Dusan hitti úr 2 vítum. Tveir 15 ára strákar, Birkir Hrafn og Dagur Nökkvi, komu aðeins inn á til að fá smjörþefinn, en þá vantar eðlilega enn kjöt á beinin til að standa verulega í fullvöxnum.

Þegar liðstölurnar eru skoðaðar kemur í ljós að Höttur vann þennan leik á þriggjastiganýtingu, 43% meðan Selfoss skaut 32%, og færri töpuðum boltum, aðeins 6 gegn 11 hjá heimaliðinu. Selfoss hafði betur í styttri skotum, 63% gegn 50%, en fráköst og stoðsendingar voru nokkurn veginn í jafnvægi.

Það var góð reynsla fyrir Selfossliðið að máta sig gegn sterku úrvalsdeildarliði og ekki ætti það að laska sjálfstraustið að vera í jöfnum leik allt til loka.

Næsta verkefni Selfoss bíður í Hveragerði nk. föstudag, 4. nóvember, þegar liðið mætir Hamri í 7. umferð 1. deildar karla.

ÁFRAM SELFOSS!!!