Selfoss mætti Skallagrími í Fjósinu í gærkvöldi í síðasta útileik tímabilsins í 1. deild karla. Eftir góða byrjun okkar manna hljóp berserksgangur á Skallagrím í lok annars og í þriðja leikhluta, sem setti Selfossliðið úr öllu jafnvægi. Í lokafjórðungnum náði það þó vopnum sínum aftur en þau bitu þó ekki nóg til að leggja Skallagrím á eigin heimavelli. Einhvern tíma hefði það þó þótt tíðindum sæta að Skallagrímur, og þeir feðgar frá Borg, hefðu barist í fjósi, en það er önnur saga og sennilega löngu fyrnd.

Selfoss var yfir í fyrsta fjórðungi, t.d. 6 stigum, 19-25, eftir 9 mínútur en heimamenn skoruðu 5 síðustu stigin og staðan 24-25 eftir 10 mín. Selfoss var enn yfir, 29-32, eftir 13 mínútna leik en þá snerist taflið og Skallagrímur réði ferðinni, náði 13 stiga forystu, 51-38, skömmu fyrir hálfleik. Selfoss skoraði síðustu körfuna fyrir hlé. Þessi munur hélst fram í miðjan þriðja hluta, en þá skoraði Selfoss ekki körfu í 2 mínútur á meðan Skallagrímur sallaði niður 7 og munurinn skyndilega orðinn 21 stig, 70-49. Nú vöknuðu Selfyssingar, breyttu varnarleiknum og minnkuðu muninn í 14 stig fyrir lok þriðja leikhluta. Áfram hélt Selfoss að mjatla forskot Skallagríms niður inn í fjórða hlutann og þegar 7 mínútur voru eftir munaði aðeins 6 stigum, 74-68, og allar dyr virtust opnar. En nú vantaði að láta kné fylgja kviði, ágæt tækifæri fóru forgörðum og leiknum lauk með 8 stiga sanngjörnum sigri heimamanna, 90-82.

Það má segja að þrennt hafi orðið Selfossliðinu að falli í þessum leik, það er sneri að því sjálfu. Eitt var að Kovac fékk lítið að kenna til tevatnsins í teignum. Hann tók 9 sóknarfráköst sem kostuðu flest körfur. Annað var að Gasper, okkar besta skytta í vetur, hitti bölvanlega að þessu sinni, 2/11 í þristum og 3/14 í skotum, sem er ólíkt honum og liðið má illa við. Í þriðja lagi kom slæmur kafli hjá Trevon sem tapaði boltanum illa nánast 5 sóknir í röð og Skallgrímur nýtti sér það til fullnustu með auðveldum körfum og byggði á þeim kafla upp forskot sem reyndist erfiður ljár í þúfu. Svo má segja, í fjórða lagi, að Battle hafi leikið betur fyrir Skallagrím að þessu sinni en hann á vanda til, þó góður sé, en hann skaut 50% utan þriggjastigalínunnar, sem er 15% yfir meðaltali, og 60% í styttri skotum, í stað sinna venjubundnu 45%a. Battle og Kovac báru uppi leik Skallagríms, en fleiri voru mjög skilvirkir þó skorað hafi minna, eins og t.d. Marinó og Bergþór.

Í Selfossliðinu var Gerald stiga- og framlagshæstur eins og oft áður, 29 stig og 11 fráköst, en hefði gjarnan mátt pönkast meira í Kovac í vörninni. Það segir reyndar sína sögu að Selfossliðið fékk aðeins 12 villur dæmdar á sig í öllum leiknum, sem er ekki vísbending um að liðsmenn séu sérstakir harðnaglar! Gasper skoraði 12 stig og tók 3 fráköst, sem er langt undir hans meðaltali, en gaf á móti 8 stoðsendingar. Trevon var með 11 stig sem er lítið, og reyndar tók hann bara 4 skot í öllum leiknum, sem er ástæðulaus hógværð af hans hálfu. Leikstjórnandinn knái gerði þó vel í að gefa 15 stoðsendingar, tala sem ekki öllum er gefið að skarta í einum leik. Og þessir 5 töpuðu boltar voru dýrkeyptir en komu allir á einu bretti, en síðan ekki söguna meir.

Það var jákvætt að sjá liðið hysja upp um sig buxurnar, eftir að hafa lent meira en 20 stigum undir, og setja alvöru pressu á heimamenn, þó leikurinn hafi tapast, sem skiptir auðvitað engu máli í stóra samhenginu.

Það sem skiptir máli, og er tilefni fyrirsagnarinnar að þessari umfjöllun, er að ungu strákarnir okkar stóðu sig vel. Þeir eru komnir feti framar væntingum með frammistöðu sinni í undanförnum leikjum, eru ekki bara farþegar að finna lyktina af nýrri veröld í meistaraflokki, heldur strax farnir að láta nokkuð að sér kveða. Það verður eitthvað eftirtektarvert, fyrr en varir, sannið þið til.

Ísar Freyr skoraði 8 stig og tók 6 fráköst, 12 framlagspunktar þar, og +7. Og liðið vann þær mínútur sem Birkir Hrafn spilaði með 11 stigum, en hann skoraði 5 stig og tók 3 fráköst, og hefði gjarnan mátt spila fleiri mínútur en þessar 10:45. Styrmir var með fína nýtingu og setti 8 stig, Sigmar Jóhann og Vito gerðu sitt og Arnar Geir nýtt sinn takmarkaða tíma á vellinum afar vel, kom inn með kraft og jákvæðni, stoppaði tvær sóknir Skallanna í röð: varði skot og náði boltanum, og stal öðrum bolta í næstu atlögu, þó ekki sjáist þetta framlag hans á tölfræðiskýrslunni, sem er miður. Svona vinna menn sér víst með tímanum inn mínútur.

Nú er einn leikur eftir hjá liðinu, heima gegn Álftnesingum á föstudaginn kemur, 25. mars kl. 19:15. Þá væri gaman að sjá reiting af fólki í stúkunni, til að gefa okkar ungum byr undir vængina sem þeir eru að þjálfa fyrir komandi langflug á glæstum ferli.

ÁFRAM SELFOSS!!!