Í samræmi við tilkynningu frá ÍSÍ og UMFÍ verður allt íþróttastarf á vegum Selfoss Körfu áfram í dvala á næstunni, eða á meðan takmarkanir á skólastarfi eru í gildi.

Heilbrigðis- og menntamálaráðuneyti hafa  beint því til íþróttahreyfingarinnar að „hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur.“

Þetta á einnig við um íþróttir fullorðinna og „þeim tilmælum beint til ábyrgðaraðila og skipuleggjenda annars íþrótta- og æskulýðsstarfs að með sama hætti verði gert hlé á starfi sem felur í sér snertingu eða nálægð milli iðkenda sem er minni en 2 metrar“.

Sóttvarnalæknir áréttar einnig að „sameiginleg notkun á hverskonar búnaði til íþróttaiðkunar boltum, dýnum, rimlum, handlóðum, skíðalyftum og margs fleira án góðrar sótthreinsunar á milli notkunar einstaklinga er mjög varasöm og ekki í anda fyrirmæla um sóttvarnir. Því er augljóst að í flestum íþróttum er nánast ómögulegt að æfa eða keppa.“

Á meðan þetta hlé á skipulögðu íþróttastarfi varir vill Selfoss Karfa taka undir hvatningu yfirvalda um að fólk sé duglegt að hreyfa sig og æfa eftir bestu getu heima við. Bendum við sérstaklega á „Driplið“ og hverjar þær aðrar æfingar sem mögulegt er að nálgast eða finna upp hjá sjálfum sér með skapandi hætti.

Fréttatilkynning ÍSÍ / UMFÍ

Sjáumst svo kát og hress þegar þessum kafla lýkur.

Körfukveðjur.