Selfossliðið renndi að Flúðum í úrhellisrigninu í kvöld til að eiga við Hrunamenn í 1. deild karla. Þetta var 11. umferð deildarinnar og önnur viðureign liðanna af þremur, en Selfoss vann heimaleikinn í september nokkuð örugglega. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn, bæði með 5 sigra. Síðan hefur þó nokkuð lekið úr kútnum hjá Selfossliðinu, töluverðar ófyrirséðar breytingar orðið á leikmannahópnum og mikilvæg reynsla sem átti að stóla á í vetur gufað upp. En maður kemur í manns stað og ungir strákar sem vilja spila og leggja sig fram fá í staðinn tækifærið. Þó síðasti heimaleikur gegn Fjölni hafi tapast mest á reynslu- og einbeitingarleysi á lokakaflanum, þá gerðu strákarnir vel að vinna þennan útileik í kvöld, þar sem allt var í járnum, spenna allan tímann og sigurinn gat lent hvoru megin sem var. Úrslitin 97-102, og Selfoss heldur 4. sætinu í deildinni.

Leikurinn var hnífjafn frá upphafi, alveg fram í miðjan 2. leikhluta, þegar Hrunamenn náðu 8 stiga forskoti, 37-29. Selfyssingar voru fljótir að éta þann mun og leiddu í hálfleik, 45-48. Aftur tóku Hrunamenn forystuna og leiddu um miðjan 3. hluta 66-60, en þremur mínútum seinna var Selfoss komið yfir 70-74. Selfoss leiddi eftir það til loka, náði mest 7 stiga forystu um miðjan 4. fjórðung, 80-87, en heimamenn minnkuðu það niður í 1 stig, 93-94, þegar þrjár mín. voru eftir og allt gat gerst – nema orðið janftefli! Selfossstrákar héldu svo hausnum örlítið betur á herðunum í endataflinu, og voru með lukkudísirnar sér í hag, lokasókn Hrunamanna til að jafna leikinn úr þriggjastigatilraun misfórst og síðasta karfan var gestanna.

„Tölfræðin lýgur ekki“ og til marks um jafnræðið með liðunum er að 14 sinnum skiptust þau á forystu og 10 sinnum var jafnt! Það sem sennilega réð úrslitum var að Selfoss skoraði 20 stig úr hraðaupphlaupum eftir tapaðan bolta heimamanna, á móti 8 stigum Hrunamanna.

Þá er athygli vert að Ahmad Gilbert er efstur í eiginlega öllum tölfræðiþáttum heimaliðsins; fráköstum (11), stoðsendingum (8), fiskuðum villum (6), framlagi (44) og stigum (42). Hann spilaði líka allar 40 mínúturnar, og tók 30 af 80 skotum liðsins. Sem er töluvert. Hann hitti ótrúlega, oft úr erfiðum afturskrefs- og bakfallsþristum sem ekki eru á allra færi. Merkilegt er að hann var eini Hrunamaðurinn sem komst á vítalínuna (6/8) og væri forvitnilegt að vita hvort það hafi yfirleitt gerst áður að einungis einn og sami leikmaðurinn í liði skjóti vítaskotum í heilum leik? Þarna er á ferðinni frábær leikmaður sem Selfossvörnin átti í mesta basli með. Hinn atvinnumaður Hrunamanna, Samuel Burt, var mjög góður líka, skoraði 27 stig, tók 10 fráköst og nýtti 76% skota sinna, hvorki meira né minna, og skilaði 37 framlagspunktum. Þeir tveir áttu 79 af 115 framlagsstigum liðsins og tóku 47 af 80 skotum!

Frændurnir Eyþór Orri og Haukur Hreinsson gáfu báðir 5 stoðsendingar, margar listilega fallegar, og Eyþór skilaði 10 framlagspunktum með 7 stigum og 60% skotnýtingu. Eyþór fær líka + í kladdan fyrir það að liðið hans vann mínúturnar sem hann spilaði með 5 stigum, sem var besta +/- tölfræði Hrunamanna. Einungis hann, Hringur Karlsson og Friðrik Heiðar eru ofan frostmarks þar. Aðrir stigaskorarar Hrunamanna voru Friðrik Heiðar 7 stig (5 frk. og 3 sts.), Haukur 5, Óðinn Freyr 5 (3 sts.), Dagur Úlfarsson 2 og Yngvi Freyr 2.

Selfossliðið mætti fáliðað, einungis 9 leikmenn á skýrslu. Ástæðan var að á sama tíma fór fram leikur Selfoss gegn Stjörnunni b (árg. 2006) í 11. flokki í Gjánni, sem Selfoss vann, vel að merkja, 100-68. En það er önnur saga, ekki síður skemmtileg þó, því framtíð félagsins er björt með frábært yngriflokkastarf, og óhætt að taka heilshugar undir með Brynjari Þór Björnssyni og Matthíasi Orra Sigurðarsyni í Körfuboltakvöldi, að áherslan í íslensku körfuboltahreyfingunni ætti að vera á þjálfun og yngriflokkastarf, að fylgjast með þróun og  nýjungum í körfuboltaheiminum, fremur en að strita fyrir launagreiðslum til erlendra leikmanna til að ná skyndiárangri, sem springur svo í andlitið á félögunum fyrr en seinna, eins og ótal dæmi sanna.

Líkt og hjá Hrunamönnum var okkar (eini) atvinnumaður atkvæðamikill. Gerald Robinson héldu engin bönd, og spurning hvort gera hefði mátt tilraunir til að bregðast við framgöngu hans með breyttum áherslum í varnarleiknum. Hann setti 49 stig, skaut 15 /16 af styttra færinu og 4/12 utan línunnar, tók 7 fráköst og fiskaði 7 villur. 47 framlagspunktar, takk fyrir túkall! Já, allt er næstum fertugum fært.

Ísak Júlíus var frábær. Hann skoraði 19 stig, skaut 47%, gaf 11 stoðsendingar, sem ritari veit að hann er stoltastur af sem leikstjórnandi, og tók 6 fráköst. Tuttugu og sex framlagskvikindi!!! Vel gert Ísak! Kennedy kom næstur með 14 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 19 í framlag. Hann setti 4/6 af þriggjastigafæri og setti nettan silkisokk ofaní sérfræðing Stöðvar Sport 2, sem sagði hann vera slaka skyttu, í sjónvarpsútsendingu um daginn.

Ísar Freyr átti líka skínandi dag, þó stigin væru bara 4 setti hann mark sitt á leikinn með öðrum hætti. Hann spilaði fína vörn, stal ábyggilega fleiri boltum en þessum 2 sem getið er um á tölfræðiskýrslunni, og truflaði alla vega sóknarleik andstæðingarnna töluvert með ákafa sínum, og kórónaði frammistöðuna með 6 fráköstum og ágætiseinkunn fyrir afleysingu í leikstjórnandastöðunni.

Arnaldur hefur oftast hitt betur en í kvöld, skoraði 7 stig og reif niður 6 fráköst, og hvernig sem annars gengur hjá honum yfirleitt, þá skortir aldrei ákefðina og tilfinningarnar. Hann leggur sig alltaf allan í leikinn, og meira er ekki hægt að biðja um. Birkir Hrafn hitti ekki heldur á sinn besta skotdag, en skoraði 4 sig og tók 2 fráköst, og engin ástæða til að hafa neinar áhyggjur af honum. Hans er framtíðin. Sömu sögu má segja um Styrmi Jónasar sem setti tvö stig úr einu skoti og bíður rólegur eftir sínu tækifæri.  Sem mun koma. Dusan stóð sína stuttu vakt vel, skoraði 3 stig og tók 2 fráköst á tæpum 6 mínútum. Sigmar Jóhann varð fyrir því óhappi að meiðast, fór úr liði á litlafingri eftir stutta innkomu, og gat ekki tekið meiri þátt í leiknum.

Af því fyrr í þessum pistli var jafnræðið undirstrikað er rétt að ítreka það með því að vekja athygli á því að liðsframlagið var jafnt, 115/115. Sem er sjaldgæf tölfræði. Selfoss var með betri nýtingu bæði í 2ja og 3ja stiga skotum, en samt var heildarskotnýting liðanna jöfn, 51%. Hrunamenn tóku ívið fleiri fráköst og gáfu fleiri stoðsendingar en töpuðu á móti fleiri boltum.

Staða Selfossliðsins í deildinni er góð, liðið er jafnt Hamri í 3.-4 . sæti með 12 stig, en Hamar hefur vissulega spilað 2 leikjum færra, og er tvímæalalaust feti framar eins og staðan er núna. Álftanes, Sindri og Hamar eru bestu liðin, í þremur efstu sætunum, og munu að öllum líkindum taka þessi tvö sæti sem í boði eru í Subwaydeildinni. Þór Ak. er á botninum án sigurs, en hin 6 liðin eru nokkuð jöfn að getu og munu berjast um þessi tvö sæti í úrslitakeppninni, sem á þessari stundu líta út fyrir að vera í boði. Þar getur svo náttúrulega allt gerst, og tíminn einn leiðir í ljós ágæti þessara vangaveltna.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræði leiksins

Staðan í deildinni