Selfoss mætti Fjölni sl. föstudag í 1. deild karla. Leikurinn fór fram á heimavelli Fjölnis í Gravarvogi og eftir framlengingu vann Fjölnir verðskuldaðan sigur, 104-95.

Það er ekki margt um þennan leik að segja, frá sjónarhóli Selfossliðsins. Andleysi og máttleysi eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann. Fjölnir leikur nú án síns bandaríska leikmanns og liðið er skipað drengja- og unglingaflokki félagsins. Leikurinn var jafn fram í annan leikhluta en þá kom svolítil tíra á lukt Selfyssinga, sem náðu mest 18 stiga forskoti og virtust hafa þetta í hendi sér. Staðan í hálfleik 42-58 Selfossi í hag.

En Fjölnisstrákar rönkuðu við sér eftir flausturslegan kafla og með baráttuanda, grimmd í vörn og hröðum sóknarleik minnkuðu þeir muninn jafnt og þétt og jöfnuðu 67-67 eftir 27 mínútur. Selfoss var oftast á undan að skora það sem eftir lifði venjulegs leiktíma en Fjölnir jafnaði 93-93 og þegar Selfyssingar klúðruðu enn einni sókninni, sem hefði átt að vera sú síðasta í leiknum, munaði minnstu að Fjölnir kláraði dæmið með flautuskoti úr teignum, en boltinn rúllaði út af hringnum.

Í framlengingunni féll gestunum allur ketill í eld og drengjaflokkur Fjölnis valtaði yfir þá, 11-2, og vann verðskuldað.

Eins og fyrr segir var einhver voðalegur doði yfir leiðtogum Selfossliðsins og frammistaðan alls ekki boðleg. Fjölnir fær því hrósið hér og er með skemmtilegasta liðið í deildinni, og gott ef ekki þó í fleiri deildum væri leitað. Félagið teflir fram ungum heimastrákum, frískum og viljugum, sumum alveg stórefnilegum, og verður að hrósa forsvarsmönnum félagsins fyrir. Undirritaður man ekki eftir öðru félagi í tveimur efstu deildum karla sem á jafn stóran hóp ungra, uppaldra leikmanna – OG NOTAR ÞÁ.

Úr tölfræðinni má taka, sem dæmi um einbeitingarleysi okkar manna, 26 tapaða bolta! 26 tapaða, geri aðrir betur!

Gerald var atkvæðamestur Selfyssinga með 31 stig og 16 fráköst, Trevon 17 stig og 9 fráköst og 9 stoðsendingar, Gasper 17 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar og Ísar Freyr stóð sig vel með 17 stig, 5 fráköst og fína nýtingu. Styrmir skoraði 6 stig, Arnar Geir 3 og þeir Sigmar Jóhann og Vito báðir 2 stig.

Það er enn nokkur tími í að Selfoss geti montað sig af sömu stöðu og Fjölnir í meistaraflokki karla, það er fáliðað heimafyrir þegar grunnskóla sleppir, en eftir 2-3 ár verða a.m.k. 30 drengir úr yngriflokkastarfinu okkar að berjast um sæti í liðinu, og mínúturnar. Þá verður alla vega gaman að lifa.

Tölfræði leiksins

Næsti leikur er í Gjánni í kvöld, mánudag 7. mars kl. 19:15, gegn Sindra frá Höfn og við treystum á meiri orku frá leikmönum þá.

ÁFRAM SELFOSS!!!