Árvirkinn ehf. verður áfram í liði með Selfoss-Körfu næstu þrjú árin en skrifað var undir samning þess efnis í blíðviðrinu á Selfossi í dag. Þar með skipar fyrirtækið sér í góðan hóp öflugust stuðningaðila félagsins til lengri tíma.

Á meðfylgjandi mynd handsala Sigríður Elín Sveinsdóttir, fjármálastjóri Árvirkjans, og Gylfi Þorkelsson, formaður Selfoss-Körfu, nýundirritaðan samninginn.

 

Árvirkinn ehf. var stofnaður í desember 1978 af þremur rafvirkjum á Selfossi.

Starfsemin byggðist frá upphafi á alhliða þjónustu á sviði raflagna og raftækjaviðgerða. Nokkrum árum síðar var opnuð verslun með hágæða raftæki og ýmis konar efni til raflagna.

Umsvif og vöxtur fyrirtækisins hafa aukist mjög á undanförnum árum og hafa verkefnin verið af ýmsum toga víða um land. Eigendur eru nú fjórir og auk þeirra starfa 35 manns hjá fyrirtækinu.

Verslun, skrifstofa og verkstæði Árvirkjans er til húsa að Eyravegi 32 á Selfossi.

Það er markmið fyrirtækisins að bjóða upp á alhliða þjónustu á sviði raflagna, engin verk eru of lítil eða of stór fyrir það. Starfsmenn Árvirkjans hafa víðtæka og fjölbreytta þekkingu, reynslu og menntun á því sviði og sérhæfa sig í öryggiskerfum og þjónustu öryggis,- brunavarna, -myndavéla -og aðgangsstýrikerfa fyrir heimili, sumarhús og fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir eftir því sem á við. Árvirkinn er samstarfsaðili Öryggismiðstöðvar Íslands. Einnig veitir fyrirtækið sérfræðiþjónustu fyrir gróðurhúsaeigendur og er samstarfsaðili Senmatic. 

Selfoss Karfa þakkar eigendum Árvirkjans kærlega fyrir stuðninginn og hlakkar til að vinna áfram með þeim að eflingu íþrótta- og tómstundastarfs í Árborg.