Í gærkvöldi mættu Selfyssingar KR-ingum í Vesturbænum. Fyrir leikinn voru Selfyssingar búnir að vinna einn leik og tapa einum. KR-ingar sýndu það í leiknum að það er ástæða fyrir því að þeim er spáð efsta sæti deildarinnar og fóru þeir nokkuð auðveldlega með okkar menn sem náðu sér aldrei á flug í leiknum.

Heimamenn settu tóninn snemma í leiknum með góðum sóknarleik sem Selfyssingar réðu illa við að stoppa. Jafnt og þétt héldu KR-ingar áfram að auka bilið á milli liðanna og staðan 49-34 í hálfleik. Eftir hálfleik skiptu heimamenn yfir í 5. gír og staðan var orðin 82-49 í lok 3. leikhluta. Lítið annað breyttist í 4. leikhluta, öruggur sigur KR-inga í höfn, 109-68.

Michael Asante fór fyrir Selfoss-liðinu með 28 stig og 13 fráköst. Ísak Júlíus Perdue var með 14 stig, Birkir Hrafn Eyþórsson 11 stig og 11 fráköst, Ísar Jónasson 6 stig, Tristan Máni Marthens 4 stig, Tristan Rafn Ottósson 3 stig og Skarphéðinn Örni Þorbergsson 2 stig.

Næsti leikur Selfoss er einnig á útivelli, nk. föstudag kl. 19:15 á móti Þór Akureyri.

Áfram gakk og áfram Selfoss!

Tölfræði leiksins