Síðasti leikur Selfossliðsins í 1. deild karla var heimaleikur gegn Hetti sl. fimmtudagskvöld. Eftir ströggl í þrjá fjórðunga small liðsheildin saman í 4. leikhluta, vann upp 12 stiga forskot gestanna og komst 5 stigum yfir þegar best lét. Síðasta mínútan var æsispennandi en liðið hélt velli og vann tveggja stiga sigur, 77-75, og gerði sig þar með gildandi í baráttunni um sæti í úrslitakeppni fjögurra liða um eitt sæti í Dominósdeildinni á næsta tímabili. Nú eru aðeins 2 stig, einn sigurleikur, sem skilur að Selfossliðið og næstu lið fyrir ofan, Hamar og Vestra. Næsti leikur er einmitt heimaleikur gegn Hamri föstudaginn 1. febrúar.

Höttur leiddi mest allan tímann sl. fimmtudag. Selfoss skoraði 2-0 en eftir 5 mínútur var staðan 2-8 og eftir 9 mín. 11-19 en Selfoss skoraði tvær síðustu körfurnar í fyrsta fjórðung. Fram undir lok þriðja fjórðungs leiddi Höttur með 2-8 stigum, 44-50 eftir 28 mín., en hann skoraði 3-9 síðustu 2 mín. leikhlutans og staðan fyrir lokaátökin 47-59. Selfoss skoraði fyrstu 4 stigin í 4. fjórðungi og saxaði hratt á forskotið, 60-61 eftir 4 mínútna leik og breytti stuttu seinna stöðunni úr 62-65 í 67-65 og náði í framhaldinu mest 5 stiga forystu eins og fram hefur komið. Höttur minnkaði það í 1 stig, 76-75 þegar lítið var eftir. Selfoss fékk 2 víti en nýtti bara annað, 77-75, og Höttur átti nógan tíma eftir til að jafna eða vinna með þriggja stiga skoti. Selfoss gerði vel í vörninni, þessar sekúndur sem eftir voru, að hindra skottilraun frá besta leikmanni Hattar, og lokaskotið, þokkalega opinn þristur, geigaði sem betur fer og Selfyssingar gátu fagnað góðum sigri eftir að hafa elt nánast allan tímann.

Margt jákvætt má draga út úr þessum leik. Liðsheildin var sterk þegar á þurfti að halda, góð barátta og liðið frákastaði vel, vann þá baráttu 42-31. Varnarleikurinn var einnig í stórum dráttum mjög góður og liðinu tókst vel að hægja á helstu sóknarstyrkleikum Hattar. Hins vegar er því ekki að leyna að enn er töluvert í land að liðið nái nógu vel saman til að spila vel slípaðan og hraðan sóknarleik, sem oft hefur verið aðalsmerki þess. Of mikið er enn um að menn nýti fyrsta tækifæri sóknarkerfanna og hnoðist þá einn á einn (eða marga) og taki óþarflega erfið skot, og fyrir vikið sést of sjaldan hin gullna aukasending á leikmanninn í besta færinu. Allt stendur þetta þó til bóta, og ekki verður hér dregið úr mikilvægi þeirrar forgangsröðunar að koma fyrst varnarleiknum í gott lag. En liðið á mikið inni, það er deginum ljósara.

Ef leikmennirnir eru teknir út hver og einn þá ber fyrstan að nefna Marvin Smith Jr. sem átti á heildina litið flottan leik, 27 stig, 15 fráköst og fína nýtingu. Snjólfur skilaði líka fínum tölum, 16 stigum og 11 fráköstum. Hlynur Hreinsson er óðum að komast inn í leik liðsins og hann átti skínandi góðan dag, ekki síst í lok leiks þegar hann skoraði mjög mikilvægar körfur. Hann skoraði 12 stig, var með 4/5 (80%) í þristum og 4 stoðsendingar. Chaed Wellian skoraði 10 stig og tók 5 fráköst en þarf að vanda betur skotvalið. Ekki var reiknað með í upphafi vikunnar að hann gæti verið með í leiknum, eftir slæm ökklameiðsli, svo það var ánægjuleg viðbót að hafa hann í búning. Ari var góður að vanda, drífur liðið áfram með baráttu sinni, skoraði 8 stig úr aðeins 6 skotum, tók 3 fráköst, gaf 3 stoðsendingar og náði 3 boltum. Björn Ásgeir stóð sig vel, með 2 stig, 3 frk. og 3 stoðs. og Maciek lék sinn fyrsta leik í langan tíma eftir fjarveru vegna bakmeiðsla, spilaði 8 mínútur rúmar, skoraði 2 stig og tók 2 fráköst. Þeir sem ekki komust á blað í stigaskori lögðu sín lóð á vogarskálar liðsheildarinnar.

Nú er undirbúningur í fullum gangi fyrir næsta leik, sem er ekki bara nágrannaslagur heldur mikilvægur (úrslita)leikur um sæti í úrslitakeppni. Vert er að hvetja alla sem vettlingi geta valdið að mæta í Gjána nk. föstudagskvöld og hvetja liðið gegn Hamri.

ÁFRAM SELFOSS!!!