Björn Ásgeir Ásgeirsson hefur samið við Selfoss um að leika með liðinu í 1. deild karla í vetur. Hann kemur frá Bandaríkjunum, þar sem hann spilaði og stundaði háskólanám skólaárið 2020-2021 en ákvað nú á haustdögum að breyta til og koma heim.

Björn er mikill fengur fyrir Selfossliðið, hann er úrvalsgóður varnarmaður og skeinuhættur í sóknarleiknum og hefur bætt sig mikið á öllum sviðum körfuboltans, enda sannkallaður vinnuhestur með skýr markmið.

Björn Ásgeir er Hvergerðingur, alinn upp í Hamri og lék með félaginu upp alla yngri flokka, og hóf meistaraflokksferil sinn 15 ára gamall árið 2015. Hann  lék með Hamri 2015-2017 áður en hann flutti sig um set til Vestra 2017-2018. Tímabilið 2019-2020 spilaði hann alla 22 leiki Hamars í 1. deildinni og yfirleitt í byrjunarliði. Hann spilaði tæpar 22 mín. og skoraði 8,2 stig, tók 2 fráköst og gaf 2,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Tímabilið 2018-2019 spilaði Björn Ásgeir 22 leiki með Selfossi og skoraði rúm 7 stig á tæpum 20 mínútum, aðeins 18 ára gamall.

Það er mikið fagnaðarefni að fá Björn Ásgeir aftur. Hann verður með reynslumeiri leikmönnum liðsins, aðeins 21 árs gamall, eykur breidd og gæði til muna í bakvarðasveit liðsins og fær kjörin  tækifæri til að taka næstu skref fram á við á ferli sínum.

Hjartanlega velkominn, Björn Ásgeir!