Selfoss fékk Skallagrím í heimsókn sl. mánudgskvöld í 1. deild karla. Þetta var nokkuð mikilvægur leikur, Selfoss hafði unnið einn leik en Borgnesingar engan þegar hér var komið sögu. Skemmst er frá því að segja að gestirnir leiddu allan tímann og unnu að lokum þriggja stiga sigur, 86-89, þrátt fyrir góða baráttu og ágætar tilraunir heimaliðsins að jafna á lokasekúndunum.

Selfossliðið byrjaði leikinn illa, og það hefur verið raunin í upphafi móts. Skallagrímur réð ferðinni og komst í 2-15 áður en okkar menn vöknuðu til lífsins. Þá minnkaði munurinn hratt og örugglega og að loknum fyrsta leikhluta munaði 4 stigum, 15-19. Í öðrum leikhluta náðu gestirnir mest 13 stiga forystu en í hálfleik stóð 37-48. Í þriðja leikhluta hélt Skallagrímur þessu forskoti lengst af, þetta 10-13 stigum en Selfoss klóraði í bakkann fyrir lok fjórðungsins og kom muninum í 7 stig, 66-73, og hélt áfram sem frá var horfið í upphafi fjórða hluta, minnkaði muninn niður í 3-4 stig. Þegar 2 mínútur voru eftir settu Skallar niður 2 mikilvæga þrista og breikkuðu bilið í 9 stig, sem reyndust okkar liði of stór biti að kyngja. Þrátt fyrir góða baráttu og tækifæri til að jafna leikinn úr lokaskotinu var lukkan ekki á okkar bandi og gestirnir unnu þriggja stiga sanngjarnan sigur, þeir voru betra liðið í þessum leik.

Það sem skildi að var fyrst og fremst mjög góð þriggja stiga nýting leikmanna Skallagríms, en annað hvert slíkt skot söng í körfuneti okkar manna. Einnig er það umhugsunarefni fyrir hið unga Selfosslið hvers vegna menn mæta ekki tilbúnir til leiks frá fyrstu mínútu. Við erum ekki með hóp af reyndum atvinnumönnum sem geta tekið leikinn í sínar hendur þegar á þarf að halda, eins og flest hin liðin í deildinni, og þurfum sannarlega á allri okkar einbeitingu að halda allar 40 mínúturnar.

Hjá Skallagrími var Hjalti Ásberg Þorleifsson bestur, ótrúlega skotviss af þriggjastigafæri (4/4) og gerði okkur marga skráveifuna. Kristófer Gíslason, Davíð Guðmundsson og Kristján Örn Ómarsson voru líka góðir, og hinn nýi miðherji liðsins, Kenneth Simms, skilaði sínu með 14 fráköstum, 6 stoðsendingum og 20 framlagspunktum.

Hinn 19 ára gamli leikstjórnandi Selfossliðsins, Kristijan Vladovic, var bestur heimamanna með 24 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar, 27 framlagsstig, og spilaði afbragðsvörn. Gaman að fylgjast með þessum pilti. Christian Cunningham var mjög góður í vörninni, tók 16 fráköst, varði a.m.k. 6 skot, gaf 5 stoðsendingar og skilaði 26 framlagspunktum, en skotnýtingin var ekki góð – og munaði um minna. Það kviknaði heldur betur á Ragnari Magna í seinni hálfleik þegar hann setti okkra flotta þrista og aðrir leikmenn gerðu marga góða hluti sem glöddu áhorfendur, en liðið vantaði betri einbeitingu frá upphafi og að fækka ‘óþarfa’ mistökum til að vinna þennan leik.

Tölfræðin

Næsti leikur liðsins er bikarleikur á heimavelli gegn Tindastóli, næstkomandi mánudag, 4. nóv. kl. 19:15