Selfossliðið lauk keppnisárinu austur í Hornafirði sl. föstudagskvöld, þar sem það mætti Sindra í leik um 4. sætið í deildinni yfir hátíðirnar. Eftir ljómandi frammistöðu fyrstu 15 mínúturnar fór að halla undan fæti í stöðunni 22-35, Sindri tók öll völd á vellinum og vann þær 25 mínútur sem eftir lifðu 71-39.

Það varð sem sagt alger viðsnúningur, Sindramenn blésu í glæðurnar svo baráttuandinn skíðlogaði, þeir voru ágengir varnarlega og slökktu með öllu þann neista sem lifði í brenni Selfyssinga í upphafi leiks. Það var erfitt að horfa upp á þetta algera „andlega hrun“ í Selfossliðinu, vel færir leikmenn og flinkir misstu kjarkinn og létu ræna af sér boltanum, vaða yfir sig í fráköstum og þvinga sig í hikandi og ósannfærandi aðgerðir. Lykilmenn virtust að mestu batteríislausir þegar á reyndi og startkaplarnir heima í bílskúr svo enga aukaorku var að hafa frá þeim til hinna óreyndari. En svona er nú boltinn, það skiptast á skin og skúrir.

Detrek Browning var atkvæðamestur Sindramanna með 28 stig, Jordan Connors setti 21, Gabriel Adersteg 14 og tók 8 fráköst og Patrick Simon skoraði 12. Ismael Gonzalez bætti 7 stoðsendingum í púkkið og Árni Birgir 8 fráköstum.

Browning, Connors og Adersteg stálu hver um sig 4 boltum, sem segir sína sögu og safnast upp í þann 21 bolta sem Selfossliðið tapaði í leiknum.

Í Selfossliðinu voru allir neðan við meðaltalið í nánast öllum þáttum í tölfræðibankanum. Okkar menn hittu þó betur af þriggjastigafæri og tóku fleiri fráköst en vítanýtingin var afar slök og tapaðir boltar fóru endanlega með allar vonir, Sindri skoraði einhver 60 stig úr hröðum sóknum, og framlagstölur segja það sem segja þarf: 115-66. Fjórir leikmenn Selfoss, sem spiluðu samtals 62 mínútur af 200, eða 31% spilatímans, skutu 0/6 og skiluðu auðu í framlag. Til að gera alvöru atlögu að toppliðunum þarf að vera meira jafnvægi innan liðsins. Nóg er af hæfileikum, það þarf bara að nota þá!

Nú er að sleikja sárin yfir jólasteikinni hjá mömmu og koma svo tvíelleftir til leiks eftir áramótin. Fyrsti leikurinn á nýju ári er strax 4. janúar á heimavelli gegn Fjölni, sem er á miklu skriði og hefur unnið 6 af síðustu 7 leikjum. Þetta er leikur um 5. sætið, því liðin eru nú jöfn með 7/6 sigurhlutfall. Einmitt þá gefst gott tækifæri til gera kápu úr klæðinu.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræðiskýrslan

Staðan í deildinni