Félagar í Selfoss-Körfu áttu góðan dag í gær við að pota niður birkiplöntum til skjóls nágrönnum okkar í Þorlákshöfn fyrir norðanstrengnum og sandfoki. Leikmenn úr m.fl. karla, yngri iðkendur og fjölskyldur þeirra sameinuðust í þessu gefandi verkefni, eins og nokkur undanfarin ár. Og merkilegt nokk – haldiði ekki hafi stytt upp rétt á meðan? Það var sem sagt lyngt, hlýtt og þurrt allan tímann og gróðursettar 16.324 plöntur á rúmum 4 tímum. 

Stjórn félagsins þakkar öllum sem gáfu sér tíma til að taka þátt. Það munar um hvert handtak í félagsstarfinu.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem Trausti Jóhannsson, þjálfari, skógfræðingur og starfsmaður Hekluskóga, tók af hópnum.