Sunnudaginn 13. október ók stúlknaflokkur FSu-Akademíu til Bolungarvíkur í mjög svo fallegu haustveðri. Liðið lék þar á móti Vestra.

Stelpurnar voru kannski einum of spenntar að hefja leikinn og því mikið um fljótfærnismistök í upphafi leiks. Þær náðu þó að rétta úr kútnum fljótlega og með góðri pressuvörn náðu þær mjög góðu forskoti strax í 1. leikhluta.

Í byrjun annars leikhluta varð Gígja fyrir því óhappi að lenda á rimlum sem eru staðsettir allt of nálægt endalínunni. Spurning hvort þessar aðstæður séu boðlegar? Gígja þurfti að fara á sjúkrahús þar sem hún var saumuð saman og lék því ekki meira í leiknum. Fljótlega eftir þetta slys tóku sig svo upp meiðsl frá síðasta leik hjá Unu Bóel og spilaði hún lítið það sem eftir lifði leiks. Þarna voru því tvær af fimm stelpum úr byrjunarliðinu dottnar út.

Þær stelpur sem komu inn skiluðu hins vegar mjög góðu dagsverki og endaði leikurinn með öruggum sigri okkar stúlkna, 75-29.

Stigaskor FSu-Akademíu: Dagrún 17 stig, Margrét 17 stig, Helga Sóley 14 stig, Milena 12 stig, Gígja 5 stig, Perla 4 stig, Una Bóel 4 stig, Hrafnhildur 2 stig.

Næsti leikur stúlknaflokks er á Selfossi laugardaginn 20. október kl. 18:00 á móti Breiðabliki.